Oft er fullyrt að ríkið hafi þanist út á áratugnum fyrir hrun. Þetta er sagt fela í sér tilefni til að skera nú duglega niður útgjöld, ekki síst útgjöld til velferðarmála. Sífellt er talað um að báknið bólgni út.
Aðrir hafa fullyrt að meint mikil útþensla ríkisins á áratugnum fyrir hrun þýði að hér hafi ekki gætt frjálshyggjuáhrifa.
Báðar þessar fyllyrðingar eru hins vegar rangar.
Það segja gögn Hagstofu Íslands, sem sýnd eru á myndinni sem hér fylgir:
Myndin sýnir öll opinber útgjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Niðurstaðan er sú, að opinber útgjöld héldust svipuð á tímabilinu, sveifluðust í kringum 42% af landsframleiðslu. Opinberi geirinn óx sem sagt einfaldlega með þjóðarframleiðslunni. Hlutur hans í þjóðarbúskapnum hvorki stækkaði né minnkaði.
Í raun hefðu opinber útgjöld þó átt að aukast umfram landsframleiðsluna. Það er m.a. vegna þess að lífeyrisþegum og ungu fólki í skólakerfinu fjölgaði tiltölulega ört og meðalaldur þjóðarinnar hækkaði á þessum tíma. Allt kallar það á aukin opinber útgjöld. Sjá ítarlegri umfjöllun hér.
Það er því enginn fótur fyrir tali um að ríkið hafi þanist óeðlilega mikið út fyrir hrun. Enginn.
Eftir hrun jukust útgjöldin sem hlutfall af landsframleiðslu tímabundið, vegna kostnaðar við fjármálahrunið. Það jafnast nú smám saman út.
Þróun opinberra útgjalda fyrir hrun segir heldur ekkert um hvort hér hafi gætt frjálshyggjuáhrifa eður ei. Meira um það síðar.
Fyrri pistlar