Mánudagur 20.08.2012 - 13:18 - FB ummæli ()

Frjálshyggjan er vandamálið – ekki lausnin

(Ath! Hér er lítillega breytt útgáfa af greininni „Fjárfestar eru vandamálið – ekki lausnin“. Hún er eiginlega betri svona).

Frægt var þegar Ronald Reagan, þá nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, sagði að ríkið væri vandamálið – ekki lausnin.

Menn eiga ekki að biðja ríkið um að leysa vandamál, sagði hann. Brýnna væri að minnka umsvif ríkisins og auka frelsi markaðsaðila, sem hann taldi að myndi færa meiri hagsæld. Hann vildi líka lækka skatta, einkum á auðmenn (fjárfesta). Reagan var frjálshyggjumaður.

Þetta var í árdaga hins nýja frjálshyggjutíma í vestrænum samfélögum, upp úr 1980. Síðan þá hefur heimurinn í auknum mæli lotið leiðsagnar frjálshyggjustefnu, með áherslu á aukið hlutverk markaðar, einkavæðingu, aukið frelsi á fjármálamörkuðum, afnám reglna og eftirlits og lægri skatta á fyrirtæki og fjárfesta. Frelsi fyrir fjárfesta varð lykilatriði.

Allt sem ríkið gerir er slæmt – allt sem einkageirinn og markaðurinn gera er gott, sögðu frjálshyggjumenn.

Mantran varð sú, að fjárfestar ættu að fá það sem þeir vildu. Frelsi til að græða sem allra mest. Fjárfestar og bankamenn urðu aðalsstétt nútímans. Ríkisstjórnir þjónuðu þeim, veittu þeim forréttindi – og jafnvel afhentu þeim völdin. Sátu veiklaðar eftir og fylgdu afskiptaleysisstefnu – slepptu öllu lausu. Óvíða gekk þetta lengra en á Íslandi.

Hver var svo uppskeran? Eftir þrjá áratugi af frjálshyggjustefnu getum við lagt dóm á reynsluna.

Tímabilið eftir 1980 hefur víðast á Vesturlöndum einkennst af því, að hagvöxtur hefur verið minni en á gullaldarárum blandaða hagkerfisins (1950 til 1975). Kaupmáttaraukning almennings sömuleiðis.

Í Bandaríkjunum hefur megnið af ávinningi hagvaxtar eftir 1980 runnið til að hækka tekjur auðmanna, en kaup lægri og millistétta hefur lítið hækkað eða staðið í stað. Vinnutími þeirra hefur aukist til að vega á móti litlum kjarabótum. Skuldir heimila hafa einnig aukist, til að halda uppi lífskjörum millistéttarinnar í Bandaríkjunum.

Umfram allt einkennist þetta tímabil frjálshyggjunnar af auknum ójöfnuði tekna og eigna. Auðmönnum gekk allt í haginn – öðrum ekki.

Frelsið á fjármálamörkuðum og víðar stórjók svo skuldasöfnun, brask og spákaupmennsku, með tilheyrandi áhættu í mörgum löndum, sem leiddi endanlega til fjármálakreppunnar.

Frelsið á fjármálamarkaði einkageirans rak þannig fjölda samfélaga í ógöngur. Hvergi var það hrikalegra en einmitt á Íslandi, sem setti heimsmet í skuldasöfnun vegna brasks og spákaupmennsku fjárfesta einkageirans.

Nú er heimurinn í fjármálakreppu sem leiddi af frjálshyggjufrelsinu. Ríkisstjórnir fjölmargra landa hafa þurft að bjarga einkareknum bönkum og fyrirtækjum og taka á sig gríðarlegar skuldir til að endurreisa hagkerfin, sem fjárfestar einkageirans lögðu í rúst.

Í kreppunni varð ríkið ekki lengur vandamálið – það varð allt í einu bjargvætturinn sem blés lífi í markað einkageirans sem brást!

En um leið og fjárfestarnir og einkageirinn fóru að draga andann á ný, þá tóku þeir upp fyrri hætti. Hófu að syngja síbyljuna um að ríkið væri vandamálið! Hægri róttæklingarnir taka undir. Þeir vilja enn meiri og róttækari frjálshyggju en fyrr!

Nú segja þeir að ríkin séu búin að steypa sér í miklar skuldir (og  passa sig að nefna ekki hvers vegna). Þá verður að skera niður útgjöld til velferðarmála og samneyslu, segja þeir. Þeir vilja róttæka niðurskurðarstefnu.

Þetta er uppskeran, það sem frjálshyggjan færði okkur.

Fjárfestar einkageirans eru auðmennirnir, ríkasta 1% fólksins. Þeir fengu frelsi frjálshyggjunnar, mökuðu krókinn og fluttu þjóðarauðinn úr landi í erlend skattaskjól. Skildu eftir botnlausar skuldir sem hin 99% þjóðarinnar þurfa að greiða – til að koma samfélaginu aftur í lag.

Frjálshyggjan er vandamálið – ekki lausnin.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar