Mánudagur 27.08.2012 - 00:27 - FB ummæli ()

Réttlæti Sjálfstæðismanna

Frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum hafa um árabil talað fyrir breytingum á tekjuskatti einstaklinga og fjölskyldna. Þeir vilja flatan 20% skatt á alla og enga frádrætti (þ.e. skatturinn yrði án persónuafsláttar eða skattleysismarka, barnabóta, vaxtabóta o.s.frv.).

Allir myndu greiða sama hlutfall tekna sinna, óháð því hveru háar tekjurnar eru.

Pétur Blöndal var í síðdegisþætti Bylgjunnar um daginn og boðaði fagnaðarerindið. Sagði að það myndi einfalda skattkerfið. Gott væri að losna við alla þessa frádrætti og ekki ætti að nota skattkerfið til að endurdreifa tekjum, með meiri álagningu á hærri tekjur.

Þetta fannst Pétri Blöndal réttlátt, sniðugt og tímabært. Þáttastjórnendur tóku fagnandi undir.

En hvað myndi felast í svona breytingu á skattkerfinu?

Jú, skattbyrði lágtekjufólks myndi stórhækka og skattbyrði hátekjufólks myndi lækka verulega. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan. Allir myndu færast á 20% línuna bláu.

Mynd 1: Beinir skattar sem % heildartekna fjölskyldna (raunverulega greiddir skattar að teknu tilliti til álagningar og allra frádráttarliða). Gögn Ríkisskattstjóra.

Ef allir myndi greiða 20% flatan skatt án frádrátta myndi skattbyrði lágtekjufólks (lægstu 10% heimila) hækka úr -3%, eins og nú er, í +20%.

Í stað þess að sumt lágtekjufólk á vinnumarkaði, t.d. einstæðar mæður, lágtekjuhjón með mörg börn og öryrkjar fengju endurgreitt frá skattinum (í barna- og vaxtabótum), þá þyrftu þau að greiða full 20% af tekjum sínum í beina skatta.

Meira að segja millitekjufólk myndi fá á sig hækkun úr 19% í 20%. Í reynd myndi skattbyrði meira en helmings allar fjölskyldna hækka, mest hjá þeim tekjulægstu.

En allra tekjuhæsta fólkið myndi fá lækkun úr 33% í 20%.

Þetta væri sem sagt breyting sem færði stóran hluta af skattbyrði hátekjufólksins yfir á lágtekjufólkið. Þetta yrði mun meiri breyting til sömu áttar og framkvæmd var á Davíðstímanum, frá 1995 til 2004. Það var bara forsmekkurinn – eins konar æfing.

Þáttastjórnendur á Bylgjunni gætu hugsanlega fengið á sig skattahækkun við svona breytingu!

Þetta er sem sagt hugmynd Sjálfstæðismanna um réttlæti. Hlífa breiðu bökunum en leggja byrðarnar á þá sem minnst hafa.

Þetta er reyndar svo róttæk hugmynd að hún hefur hvergi verið framkvæmd, eins og Pétur Blöndal viðurkenndi. Raunar er hún óvíða til umræðu nema hjá allra róttækustu frjálshyggjumönnum. En þetta er á dagskrá í Valhöll.

Milton Friedman, sem líka var frjálshyggjumaður, hefði ekki skrifað upp á slíka róttækni. Hann vildi hlífa lágtekjufólki með skattleysismörkum sem væru jafn há og lágmarkslaun. Hugmyndin um flatan 20% skatt gengur meira að segja í berhögg við hugmynd Adams Smiths um eðlilega skattbyrði. Hann vildi leggja meiri byrðar á þá sem breiðu bökin hafa.

Frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum eru þannig komnir út á yzta væng hægrisins í heiminum. Umdeildar skattalækkanir Bush-stjórnarinnar til auðmanna í USA eru bara barnaleikur í samanburði við þessar hugmyndir Sjálfstæðismanna.

Vonandi áttar almenningur sig á því hver stefna Sjálfstæðismanna er.

Þeir ætla að flytja skattbyrðina af hátekjufólki yfir á lágtekjufólk – og munu kalla það “skattalækkanir”.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar