Laugardagur 01.09.2012 - 11:28 - FB ummæli ()

Hættuleg einfeldni frjálshyggjunnar

Frjálshyggjumenn eiga það sameiginlegt með marxistum að trúa á eins konar lögmál um mannlífið. “Lögmálin” eru altækar kenningar sem einfalda veruleikann og veita forskrift sem iðuglega er einföld og einstrengingsleg. Ef “lögmálinu” er fylgt út í æsar fer iðuglega illa, því mannlífið lýtur ekki föstum einföldum lögmálum.

Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, sagði í viðtali árið 2008 að fall Wall Street og fjármálakreppan sem því fylgdi væri dauðadómur yfir frjálshyggjunni, líkt og fall Berlínarmúrsins var yfir kommúnismanum.

Kommúnistar hafa almennt orðið hægt um sig. Frjálshyggjumenn gefa hins vegar hvergi eftir. Viðurkenna enga annmarka á lögmálum frjálshyggjunnar og hins óhefta markaðar. Sækja frekar í sig veðrið, vel vopnaðir styrkjum frá auðmönnum, sem kunnar að meta þau fríðindi sem framkvæmd frjálshyggju iðuglega færir þeim.

Í Fréttablaðinu í dag er grein um frjálshyggju og Milton Friedman, sem er gegnsýrð af þessari einfeldni sem rétttrúuðum lögmálsmönnum er svo hætt við. Þar rekur Guðmundur Edgarsson málmenntafræðingur fjórar leiðir til ráðstöfunar peninga, að hætti Friedmans, og dregur djarfar ályktanir.

1. Að eyða eigin peningum í sjálfan sig er best (sérhyggja og eigingirni). 2. Að eyða eigin fé í aðra er næst best (góðgerðarstarf). 3. Að eyða annarra fé í sjálfan sig er forskrift að bruðli (nýta t.d. risnuheimildir). 4. Og loks að eyða annarra fé í þriðja aðila er versta ráðstöfun fjár, en það tengir hann við stjórnmál eingöngu (ráðstöfun ríkisins á skattfé).

Nú er þessi framsetning trúverðug í augum flestra, þ.e. sú trú að menn fari jafnan best með eigin fé og viti best hvernig beri að verja því. Hins vegar horfir framsetningin framhjá því að svo er ekki sjálfkrafa né alltaf.

Væntanlega er þó mörgum ljóst að margir eru til sem fara illa með eigin fé, hafa hvorki ráðdeild til skemmri né lengri tíma. Ef ekki væri t.d. skylduaðild að lífeyrissparnaði eða almannatryggingakerfi myndu margir trassa að leggja til hliðar fyrir óvæntum áföllum og framfærslu í ellinni. Stæðu óvarðir fyrir algengum áföllum og fyrirséðum þörfum framtíðar.

Leiðir 2 til 4 geta einnig vel verið í góðu lagi, m.a. fyrir áhrif siðferðisvitundar, skýrra leikreglna, eftirlits og aðhalds hvers konar sem víða er að finna í mannlífinu, ekki síst í opinbera kerfinu.

Allar þessar fjórar leiðir geta því bæði tekist vel eða illa. Það er yfirleitt undir mörgu komið hvernig farnast. Sumar leiðir eiga betur við á einu sviði, aðrar á öðru.

En teknar á hinn einfeldningslega máta, eins og hinum trúuðu lögmálsmönnum er hætt við, þá verða forskriftirnar undarlegar og villandi – jafnvel hættulegar.

Þessi framsetning frjálshyggjumanna, að stjórnmálamönnum einum sé hætt við að fara illa með fé, t.d. bannar nánast lýðræðisleg stjórnmál eða gerir veg þeirra sem minnstan. Í staðinn vilja frjálshyggjumenn veg markaðarins sem mestan, en þar ráða auðmenn oftast för. Stefna frjálshyggjumanna magnar upp vald auðmanna en hamlar lýðræðinu.

En er ráðstöfun stjórnmálamanna alltaf verri en fésýsla einkaaðila?

Tökum dæmi. Í Bandaríkjunum er heilbrigðisþjónusta einkum rekin af einkaaðilum, en í Skandinavíu er slíkt kerfi að mestu rekið af opinberum aðilum fyrir skattfé. Bandaríska kerfið er um 50% dýrara en þau skandinavísku en skilar samt lakari árangri en þau á flesta mælikvarða tryggingaverndar og heilbrigðis þjóðanna. Þarna er dæmi um að ráðstöfun stjórnmálamanna á skattfé tekst mun betur en ráðstöfun einkarekstraraðila á forsendum markaðarins.

Greinarhöfundur sagði að ráðstöfun á annarra fé til þriðja aðila (leið 4) sé bundin við stjórnmál ein og vegna óskynsemi stjórnmálamanna beri að takmarka svigrúm þeirra eða jafnvel úthýsa þeim. Samt er meira aðhald með ráðstöfun opinberra fjármuna en fjármuna í einkageira. Um það má fræðast ítarlega í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

En þessi ágæti frjálshyggjumaður horfir framhjá því hversu algengt er á almennum markaði að leiðir 3 og 4 séu farnar, þ.e. að ráðstafa annarra fé til sjálfs sín eða til þriðja aðila. Risna er t.d. miklu meiri í einkageira en opinbera geiranum.

Tökum fleiri dæmi. Útrásarvíkingar voru iðuglega að ráðstafa lánsfé (annarra fé) til sjálfra sín eða fyrirtækja sinna. Lögðu nær aldrei fram umtalsvert eigið fé heldur bröskuðu mest með lánsfé. Kúlulánin eru skýrasta birtingarmynd þessa.

Bankamenn ráðstöfuðu annarra fé (erlendu lánsfé) til þriðju aðila (atvinnurekenda og braskara). Stór hluti af því sem fram fer á óheftum fjármálamarkaði er af þessum toga og er í reynd ein af stóru áhættunum sem honum fylgja.

Þess vegna er aðhald og eftirlit svo mikilvægt á fjármálamörkuðum. Frjálshyggjumenn vilja hins vegar sem minnst eftirlit. Þeir vilja óheft frelsi til brasks með annarra fé – jafnvel þó því fylgi miklar áhættur fyrir samfélagið allt.

Óheft frelsi fjármálaheimsins var ein af stærstu orsökunum fyrir alþjóðlegu fjármálakreppunni. Sama frelsið bjó til íslenska bóluhagkerfið sem hrundi. Það sýnir veikleika óheftra markaðshátta, bæði í fjármálum og á öðrum sviðum.

Fjármálamenn frjálshyggjunnar hugsuðu djarflega um eigin hag – og stefndu með því þjóðarhag í voða. Ósýnilega höndin (guð frjálshyggjunnar) kom okkur ekki til bjargar, heldur sýnileg hönd ríkisvaldsins.

Svart-hvítur heimur frjálshyggjumanna er því miður of mikil einföldun – líkt og marxisminn var.

Hættuleg einföldun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar