Hið nýja frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013 er athyglisvert. Þar er sýnt að áætlunin um að koma ríkisbúskapnum á sléttan sjó eftir frjálshyggjuhrunið er að takast. Það er afar mikilvægt og alls ekki sjálfsagt.
Menn geta t.d. skoða hvernig ýmsum evrópskum þjóðum sem lentu illa í kreppu gengur að höndla ríkisbúskap sinn! Bandaríkin eru líka með stóran halla og sjá fram á viðvarandi halla um mörg ókomin ár.
Skuldirnar sem við sitjum uppi með vegna kostnaðar við hrunið eru þó gríðarlegar og mikilvægt að komast fljótlega í að greiða þær niður í framhaldinu. Það þarf að gera með auknum tekjum af auðlindum þjóðarinnar og góðu framlagi frá þeim sem græddu mest á árum bóluhagkerfisins, þ.e. hátekju- og stóreignafólki. Fyrirtækin þurfa líka að greiða meira í skatta til að þjóðin nái þessu markmiði fljótt og vel.
En þetta er ekki eina atriðið sem fagna má í fjárlagafrumvarpi Oddnýjar Harðardóttur. Áherslurnar á velferðarmál, nýsköpun og samgönguframkvæmdir, í samræmi við hina snjöllu fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og Guðmundar Steingrímssonar, eru mikið fagnaðarefni.
Hækkun barnabóta um allt að 30% eru stór og tímabær tíðindi. Einnig frekari aukning vaxtabóta.
Þessi stefna í frumvarpinu og fjárfestingaráætluninni er í takti við boðskap Paul Krugmans, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Hún mun skila sér í örvun efnahagslífsins um leið og hún léttir enn frekar undir með heimilum sem fóru illa út úr hruninu. Gerir líka auðveldara að borga niður skuldir ríkisins með auknum hagvexti í framhaldinu.
Í svokölluðu “góðæri” frjálshyggjutímans (1995 til 2006) lækkuðu vaxtabætur og barnabætur stórlega. Nú eftir hrun hafa vaxtabætur verið hækkaðar afar mikið og barnabætur eru næstar á dagskrá. Það eru góð tíðindi fyrir mörg heimili.
Sá góði hagvöxtur sem er á Íslandi, í samanburði við önnur kreppulönd, sýnir að markviss velferðarstefna í kreppu er líka góð hagfræði. Það er gömul lexía frá hagfræði Keynes, sem reynd var á árum Kreppunnar miklu, 1933 til 1939.
Þetta mættu þeir læra sem alla jafna telja velferðarútgjöld vera gagnslausa sóun. Sá söfnuður boðar róttækan niðurskurð á næstu misserum, komist þeir til valda.
Lexían frá Evrópu núna og Kreppunni miklu á fjórða áratugnum er sú, að með róttækri niðurskurðarstefnu dýpkar kreppan á ný.
Sú stefna sem nú tíðkast á Íslandi er mun betri kostur – fyrir heimilin og þjóðarbúið í senn.
Fyrri pistlar