Fimmtudagur 13.09.2012 - 14:14 - FB ummæli ()

Skattpíning Bjarna Benediktssonar

Í sjónvarpsumræðum frá Alþingi í gærkveldi, um stefnuræðu forsætisráðherra, sagði Bjarni Benediktsson að ríkisstjórnin verði að láta af skattpíningarstefnu sinni.

Hvaða skattpíningarstefna er það?

Ég hef áður sýnt að heildarskattheimta, þ.e. allar skatttekur hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu, hefur minnkað eftir hrun, en ekki aukist (sjá hér og hér og hér).

Skatttekjurnar allar samanlagðar voru um 42% af landsframleiðslu 2006-7 en fóru niður í 36% árið 2010. Stjórnvöld taka nú í reynd minni hluta af þjóðarkökunni sem sjálf hefur minnkað um 10% á árinu 2010. Þetta eru viðurkenndar staðreyndir frá OECD og Hagstofu Íslands.

En skoðum sérstaklega tekjuskattbyrði einstaklinga, nú og fyrir hrun? Það má sjá á mynd 1, en tölurnar koma einnig frá OECD og sýna hverju tekjuskattur einstaklinga skilar í opinbera sjóði (sjá hér).

Mynd 1: Tekjuskattgreiðslur einstaklinga sem % af landsframleiðslu, 2003 til 2010. Ísland og meðaltal OECD-ríkja samanborin.

Tekjuskattbyrði einstaklinga á Íslandi hafði lengi verið minni en að meðaltali í OECD-ríkjunum, eða til 1998, en þaðan í frá skreið hún hratt upp fyrir meðaltal OECD-ríkjanna, vegna aukinnar skattbyrði lægri tekjuhópa.

Tekjuskattbyrði einstaklinga á Íslandi náði hámarki árin 2003 til 2007 og nam þá 13,8% til 14,2% af landsframleiðslu. Eftir hrun hefur skattbyrðin verið 12,8-12,9%.

Meðal tekjuskattbyrði einstaklinga og fjölskyldna hefur sem sagt lækkað umtalsvert í tíð núverandi stjórnar. Endurreisnarstarf eftir hrun hefur farið fram með minni heildar skattheimtu af einstaklingum en var fyrir hrun.

Er það aukin skattpíning?

Meðaltalið felur þó aðra raunverulega breytingu sem varð á skattbyrði einstaklinga eftir hrun. Í reynd var það svo, að skattbyrði um 60% fjölskyldna lækkaði en skattbyrði um 40% fjölskyldna hækkaði.

Byrðin lækkaði hjá þeim tekjulægri og miðjuhópum, en hún hækkaði hjá þeim 40% sem hæstu tekjurnar hafa. Þetta má sjá á mynd 2.

Mynd 2: Skattbyrði fjölskyldna árið 2007 og 2010. Heildarskattgreiðslur sem hlutfall heildartekna fyrir skatt (beinir skattar, að teknu tilliti til álagningar og allra frádráttarliða), eftir 10 jafn stórum tekjuhópum og tekjuhæsta 1% hópnum (ofurtekjufólki-lengst til hægri á myndinni).

Myndin er skýr. Lægri tekjuhópar eru vinstra megin á myndinni en þeir tekjuhærri hægra megin. Sýnt er hversu stóran hluta af tekjum sínum fjölskyldur í hverjum tekjuhópi greiddu í tekjuskatt árið 2007 (ljósu súlurnar) og svo 2010 (dökku súlurnar).

Bjarni Benediktsson er væntanlega í hópi þeirra tekjuhæstu sem fengu skattahækkun eftir hrun, hægra megin á myndinni. Skattpíning hans nú væri þá svipuð og hafði verið hjá hátekjufólki árið 1995, þ.e. áður en ríkisstjórnir Davíðs og Halldórs lækkuðu skattbyrði hærri tekna. Skattpíning hátekjufólks jókst sem sagt eftir hrun.

Skattar á fyrirtæki og fjárfesta voru reyndar einnig hækkaðir nokkuð, enda voru þeir orðnir óvenju lágir fyrir hrun. Bjarni Benediktsson er líka í þeim hópi.

Bjarni Benediktsson og aðrir Sjálfstæðismenn segjast vilja taka til baka þær breytingar sem gerðar voru á skattkerfinu eftir hrun.

Ef það verður gert mun skattbyrði hátekjufólks lækka en byrðar lægri og milli tekjuhópa munu aukast.

Þá mun draga úr skattpíningu Bjarna og félaga hans í efri hluta tekjustigans.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar