Ég hef ekki verið aðdáandi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Málflutningur hans er oft mjög ómerkilegur og sumt sem tengist pólitík hans er skuggalegt, eins og Ingi Freyr Vilhjálmsson fréttastjóri DV rifjaði upp um daginn.
En Guðlaugur Þór reifaði góða hugmynd í pistli á Pressunni í vikunni. Sjálfsagt er að hann njóti sannmælis fyrir það. Þetta er reyndar skemmtileg tilbreyting við venjulegan málflutning hans – og flestra annarra Sjálfstæðismanna. Þeir styðja nú orðið nær eingöngu afleitar hugmyndir.
Hugmyndin er sem sagt sú, að leyfa fólki að losa séreignasparnað sinn til að greiða niður húsnæðisskuldir sínar.
Þetta er að vísu hugmynd sem Már Wolfgang Mixa fjármálafræðingur hefur reifað nokkrum sinnum. Hugmyndin er svosem líka í stíl við þá stefnu ríkisstjórnarinnar, sem framkvæmd hefur verið síðustu ár, að leyfa takmarkaða losun séreignasparnaðar (en með frjálsu vali um til hvers hann er notaður).
Mér finnst samt hugmyndin að tengja þetta nú við niðurgreiðslu húsnæðisskulda ansi góð. Sparnaður heimila er betur geymdur í húsnæði en í vörslu fjármálamarkaðanna, við núverandi aðstæður.
Ég hvet stjórnmálamenn allra flokka til að gera þessa hugmynd Más Mixa að sinni.
Skatttekjurnar sem af þessu fást mætti svo nota til að greiða niður skuldirnar sem frjálshyggjuhrunið lagði á ríkið.
Ekki veitir af!
Fyrri pistlar