Mánudagur 01.10.2012 - 00:14 - FB ummæli ()

Bjarni Benediktsson hagræðir hagtölum

Í vikunni var Bjarni Benediktsson í viðtali í Morgunblaðinu að tala um skattbyrði. Hann kynnti þar línurit sem átti að sýna að skattbyrði allra hafi aukist frá 2007 til 2012.

Línuritið er byggt á reiknidæmi sem hagræðir forsendum á þann veg að útkoman fyrir árið 2007 verður röng. Tölur Bjarna eru ekki raunverulega álagðir skattar, heldur skáldaðir skattar.

Hann, eða þeir sem reiknuðu dæmið fyrir hann, uppfæra tölur ársins 2007 með vísitölu neysluverðs til dagsins í dag. Enginn greiddi skatta samkvæmt því á árinu 2007 heldur samkvæmt rauntölum þess árs. Þessi samanburður Bjarna á reiknaðri skattbyrði ársins 2007 og 2012 verður þar með marklaus.

Fullyrðingar hans um að tekjuskattbyrði allra hafi aukist eftir hrun eru því alrangar.

Þetta er staðfest af embættismönnum fjármálaráðuneytisins og hagfræðingum ASÍ. Talsmaður Samtaka atvinnulífsins reynir hins vegar að verja reiknibrelluna með veikburða yfirklóri í Morgunblaðinu.

Það er þó annað í þessum málflutningi formanns Sjálfstæðisflokksins sem er enn alvarlegra. Inn í dæmið vantar barnabætur og vaxtabætur, sem dragast frá álögðum tekjuskatti einstaklinga. Bætur þessar eru hluti af tekjuskattkerfinu og hafa mikil áhrif á endanlega skattbyrði fólks.

Ekkert er hægt að fullyrða um raunverulega skattbyrði tekjuhópa án þess að taka tillit til barna- og vaxtabóta. Raunar vantar líka inn í þetta skáldaða reiknidæmi Bjarna áhrif af fjármagnstekjuskattinum á fjármagnstekjur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem talsmenn Sjálfstæðisflokks skálda reiknidæmi um skattbyrði á röngum forsendum. Þeim hefur áður verið bent á reiknivillur slíkra dæma. Þegar Tryggvi Þór Herbertsson gerði skylda reiknivillu fyrr á árinu baðst hann afsökunar. Það virðist því sem Bjarni fari vísvitandi fram með þessar rangfærslur núna.

Ef menn ætla að skoða hvort skattbyrði fólks í ólíkum tekjuhópum hafi breyst eftir hrunið þá á að skoða tölur um það sem fólk í ólíkum tekjuhópum raunverulega greiddi í tekjuskatt af tekjum sínum, t.d. árin 2007 og 2010, að teknu tilliti til álagningar og allra frádráttarliða (ekki eru til nýrri rauntölur enn sem komið er).

Þær tölur, sem eru niðurstaða skattaálagningarinnar eins og hún var í reynd, sýna með ótvíræðum hætti að skattbyrði lægri og milli tekjuhópa lækkaði frá 2007 til 2010, mest hjá tekjulægsta hópnum. Skattbyrði tekjuskattkerfisins hækkaði einungis hjá þeim 40% fjölskyldna sem hæstu tekjurnar höfðu, en lækkaði hjá öllum öðrum (sjá hér og hér).

Nú hefur verið tilkynnt í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012 að barnabætur verða hækkaðar umtalsvert og einnig vaxtabætur að hluta. Það mun lækka skattbyrði lægri og milli tekjuhópa enn frekar en verið hefur eftir hrun. Þetta vantaði sem sagt einnig inn í hið skáldaða reiknidæmi Bjarna.

Bjarni Benediktsson er þannig staðinn að því að hagræða hagtölum vísvitandi í áróðursskini. Fullyrðingar hans um aukna skattbyrði allra eru ekki byggðar á staðreyndum. Hann reynir með þessu að halda ósannindum að almenningi.

Það hlýtur að teljast alvarlegt fyrir formann í stjórnmálaflokki, sem ætti að vilja láta taka sig alvarlega.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar