Þriðjudagur 02.10.2012 - 08:49 - FB ummæli ()

Barnabætur – tímamót Oddnýjar Harðardóttur

Það voru tímamót hjá Oddnýju Harðardóttur fv. fjármálaráðherra í gær. Hún kvaddi ráðuneytið eftir 9 mánuði í embætti.

Oddný hefur þótt standa sig vel, enda með góða reynslu úr fjárveitinganefnd Alþingis áður en hún tók við fjármálaráðuneytinu. Hófsöm og traustvekjandi framkoma hefur einkennt stjórnmálaferil hennar, sem hefur verið mjög árangursríkur.

Það var vel til fundið hjá Oddnýju að tilkynna stórar breytingar á barnabótakerfinu á síðasta degi sínum í embætti, með allt að 30% hækkun bótanna. Það eru tímamót.

Jón Baldvin Hannibalsson hafði komið á mjög öflugu nýju kerfi barnabóta er hann var fjármálaráðherra árið 1988. Barnabótakerfið var síðan stórskemmt á tímabilinu 1996 til 2004. Það rýrnaði ár frá ári. Stefna ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar var sú að draga úr persónufrádrætti tekjuskattsins, barnabótum og vaxtabótum. Allt kom það illa við lægri tekjuhópa, ekki síst ungar barnafjölskyldur.

Núverandi ríkisstjórn hefur stóraukið vaxtabætur eftir hrun og persónuafslátturinn í tekjuskattinum hækkaði einnig umtalsvert. Það hafa verið mikilvægar breytingar til að verja hag lægri og milli tekjuhópa í kreppunni. Barnabæturnar höfðu hækkað nokkuð frá 2004 til 2008 en síðan rýrnað á ný.

Í skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands, sem birt var í síðustu viku, kom fram að barnabæturnar væru einn veikasti hlekkurinn í mótvægisaðgerðum stjórnvalda, sem ætlað var að verja lægri og milli tekjuhópana gegn verstu afleiðingum kreppunnar.

Nú er sem sagt komið að því að bæta úr á þessu sviði. Strax í byrjun næsta árs verður þetta skref stigið. Síðan þarf að halda áfram og efla hag barnafjölskyldna enn frekar í framhaldinu á næstu árum.

Oddný Harðardóttir og ríkisstjórnin öll mega vel við una að koma þessu máli í höfn. Fjármálahrunið gerði slíkar kjarabætur erfiðar, enda forgangsverkefni að koma ríkisbúskapnum á sléttan sjó.

Þar sér nú til sólar á ný og gott að hækkun barnabóta skuli hljóta náð svo snemma. Barnabætur voru orðnar alltof lágar og ungar barnafjölskyldur fóru margar sérstaklega illa út úr hruninu.

Það er góð velferðarstefna að bæta hag þessa hóps – stefna sem örvar efnahagslífið um leið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar