Þriðjudagur 02.10.2012 - 17:47 - FB ummæli ()

Persónuafsláttur Bjarna Benediktssonar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var í herferð í síðustu viku, með útreiknaðan boðskap um að skattbyrði allra hafi hækkað eftir hrun.

Bjarni brá á það ráð, til að fá “rétta” niðurstöðu, að reikna skattbyrðina eins og tekjuskattur hefði verið lagður á kaupmátt tekna ársins 2007 (eftirá) en ekki á venjulegar heildartekjur ársins, eins og gert er hjá skattinum á hverju ári. Niðurstöðurnar urðu þar með alrangar. Hann reiknaði kaupmáttarskerðingu hrunsins inn í skattaálagninguna á árinu 2007.

Eftir að útreikningar Bjarna voru reknir ofan í hann af sérfræðingum fjármálaráðuneytisins breytti Bjarni hins vegar um umræðuefni. Sagði að reiknidæmi hans snérist um svik ríkisstjórnarinnar um að efna loforð í kjarasamningum, sem var að persónuafsláttur skyldi hækka með verðlagi og ríflega það.

Á bloggi mínu í gær ítrekaði Bjarni þetta og sagði:

“Það sem er ámælisvert Stefán er að ríkisstjórnin skyldi ákveða að virða ekki gefin fyrirheit um verðtryggingu persónuafsláttar (auk hækkunar um 7.000 kr.) fram til 2012 en halda því engu að síður fram að aðgerðir hennar hafi hlíft lægstu launum. Það er virkilega ámælisvert enda fékk stjórnin að heyra það frá verkalýðsfélögum um allt land þegar svikin urðu ljós.”

Það er reyndar rétt hjá Bjarna að ríkisstjórnin stóð ekki við þessi fyrirheit að fullu öll árin, einkum 2011, en hún hækkaði samt persónuafsláttinn verulega (t.d. um 24% árið 2010).

Lítum á þróun skattleysismarkanna (persónuafsláttarins)  yfir tíma.

Þróun skattleysismarka sem hlutfall af launum verkafólks, 1998 til 2012.

Línan sýnir þróun heildarlauna verkafólks en súlurnar sýna hlutfall skattleysismarka af þeim launum, þ.e. hve stór hluti launanna var skattfrjáls á hverju ári.

Þarna má sjá hvernig ríkisstjórnir Davíðs og Halldórs rýrðu skattleysismörkin stórlega frá 1998 til 2007, eða úr 40% af launum verkafólks niður í 26%. Þetta þýðir að verkafólk greiddi tekjuskatt af sífellt stærri hluta tekna sinna til 2007, þ.e. skattfrjálsi hluti launanna minnkaði. Það, ásamt öðru, leiddi til verulega aukinnar skattbyrði lægri tekjuhópa.

Eftir hrun voru skattleysismörkin (persónufrádrátturinn) hækkuð á ný umfram launahækkanir, upp í 33-35%. Þetta þýðir að þá stækkaði aftur sá hluti launa verkafólks sem var skattfrjáls – og skattbyrði verkafólks lækkaði.

Svikin sem Bjarni talar um eru einkum það að skattleysismörkin skyldu ekki hækka á árinu 2011, en þau hækka síðan nokkuð á þessu ári.

Auðvitað hefði verið betra að skattleysismörkin hefðu hækkað enn meira en varð. Hækkunin varð þó nógu mikil til að tryggja að skattbyrði lægri tekjuhópa (t.d. verkafólks, atvinnulausra og lífeyrisþega) lækkaði í reynd. Síðan hjálpaði stórhækkun vaxtabóta enn frekar við að létta skattbyrðina hjá skuldugum heimilum.

Myndin sýnir þannig hvernig einn stærsti þátturinn sem mótar skattbyrði lægri tekjuhópa breyttist eftir hrun. Hækkun skattleysismarka þýðir alla jafna lækkun á skattbyrði, mest hjá lægstu tekjuhópunum.

Stóra spurningin er þá þessi, hefði ríkisstjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar hækkað skattleysismörkin (persónuafsláttinn) miklu meira en núverandi ríkisstjórn þó gerði, eða hefði Bjarni fylgt fordæmi Sjálfstæðisflokksins frá 1998 til 2007? Hefði Bjarni sjálfur gert það sem hann sakar ríkisstjórnina um að hafa ekki gert?

Bjarni svaraði ekki þessari spurningu er ég beindi henni til hans í gær.

Sjálfstæðismenn hafa ekki svo vitað sé boðað breytta stefnu í skatta- og bótamálum. Þeim er almennt illa við bætur velferðarkerfisins og skattleysismörkin og teljast ekki líklegir til að hækka þessa þætti. Þvert á móti hafa þeir þegar boðað þörf fyrir róttæka niðurskurðarstefnu.

Hætt er við að slík stefna myndi bitna illa á barna- og vaxtabótum, sem og á persónuafslættinum. Þar er stórar upphæðir að fá í niðurskurðardæmið, nema farið verði í að lækka lífeyri eldri borgara og öryrkja stórlega – ja eða að skera stórlega til viðbótar útgjöld til heilbrigðiskerfisins.

Einu er ég þó alveg sammála í ummælum Bjarna á blogginu mínu í gær og það er þetta:

“Verkefnið er að bæta kjörin, hækka launin…

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar