Fimmtudagur 04.10.2012 - 10:52 - FB ummæli ()

Atvinnurekendur vilja meiri frjálshyggju

Samtök atvinnulífsins hafa kynnt nýjar tillögur sínar um breytingar á samkeppnislögum. Samtökin vilja veikja framkvæmd laganna, veikja Samkeppniseftirlitið og fá meira frelsi á markaðinn.

Fræg er lýsing Adams Smith í bókinni Auðlegð þjóðanna á því hvernig fundir kaupahéðna snúast gjarnan upp í tal um samráð gegn hagsmunum almennings. Þetta má einmitt sjá í framkvæmd í þessum nýju tillögum Samtaka atvinnulífsins.

Forstjóri Samkeppnisyfirlitsins talaði óvenju skýrlega á fundi SA í gær um þessi nýmæli. Eftirfarandi er niðurstaða hans af yfirferð um helstu tillögurnar:

“Allar þessar tillögur vinna í eðli sínu gegn hagsmunum þeirra fyrirtækja sem þurfa á samkeppnislögum að halda til að komast inn á markaði og vaxa og dafna við hlið stærri fyrirtækja. Þær vinna gegn hagsmunum neytenda og samfélagsins af virkri samkeppni”.

Afskiptaleysisstefna frjálshyggjunnar var ráðandi á árunum frá aldamótum til hruns. Það sjónarmið var afdrifaríkast og skaðlegast á fjármálamörkuðum. Hér á landi sáum við á þeim tíma ítrekaðar tillögur um niðurlagningu Samkeppniseftirlitsins eða rýrnun þess og Fjármálaeftirlitsins. Menn í atvinnulífi og á hægri væng stjórnmálanna töluðu af mikilli fyrirlitningu um “eftirlitsiðnaðinn” sem þeir sögðu hamla frelsi fyrirtækjaeigenda.

Nú sjá hins vegar flestir málsmetandi menn og konur á Vesturlöndum að afskiptaleysisstefnan á fjármálamörkuðunum leiddi þjóðir heimsins í ógöngur fjármálakreppunnar. Engin þjóð fór ver út úr þeirri þróun en Íslendingar.

Viðskiptaráð stærði sig af því að hafa komið 95% af stefnumálum sínum inn í stefnu ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Stefnumál Viðskiptaráðs voru nær öll af frjálshyggjutoga. Þessir aðilar hafa engu breytt í stefnu sinni, þrátt fyrir hrunið.

Nú hafa Samtök atvinnulífsins komið til dyranna eins og þau eru klædd. Vilja rýra eftirlit og aðhald á markaðinum almennt, jafnvel þó það vinni gegn hagsmunum neytenda og samfélagsins af virkri samkeppni.

Samtök atvinnulífsins vilja frelsi án aðhalds og gefa þannig lítið fyrir boðskap Adams Smiths. Samt hæla þeir honum á tillidögum…

Vofa frjálshyggjunnar leikur enn ljósum logum um Ísland.

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar