Í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöld var frétt um að hundruð breytinga hefðu verið gerðar á skattkerfinu eftir hrun sem hefðu falið í sér hækkun gjalda á hvern íbúa upp á um 360.000 krónur. Fréttin virtist vera í boði Viðskiptaráðs.
Vissulega hafa verið gerðar breytingar á tekjuöflunarkerfi hins opinbera vegna hrunsins, en þær telja ekki í hundruðum. Sumar breytingar hafa lækkað skatta en aðrar hækkað. Byrðunum hefur meira verið endurdreift en að þær hafi verið auknar.
Meðlimir Viðskiptaráðs greiða nú meira en fyrir hrun (bæði fyrirtæki, stórir fjármagnseigendur og hátekjufólk), en rúmlega helmingur fjölskyldna greiðir minna í tekjuskatta en fyrir hrun, þ.e. þau 60% fjölskyldna sem lægri tekjur hafa. Sumir greiða meira í neysluskatta en aðrir minna.
Reyndar hafa bæði heildartekjur og skatttekjur hins opinbera stórlækkað eftir hrun. Heildartekjur hins opinbera voru t.d. árið 2011 um 18% lægri að raunvirði en verið hafði á árinu 2007.
Þessa þróun tekjuöflunar hins opinbera má sjá á tveimur meðfylgjandi myndum, sem koma úr birtum gögnum Hagstofu Íslands.
Mynd 1: Heildartekjur og skatttekjur hins opinbera á föstu verðlagi, frá 2000 til 2011 (m.kr.).
Heildartekjur á föstu verðlagi eru svipaðar árið 2011 og var milli áranna 2004 og 2005, en skatttekjurnar eru svipaðar og var á árinu 2004.
Mynd 2: Heildatekjur og skatttekjur hine opinbera sem % af vergri landsframleiðslu, 2000 til 2011.
Skatttekjur hins opinbera eru nú minni sem hlutfall af landsframleiðslu en áður hefur verið frá árinu 2000 og heildartekjurnar eru svipaðar og var á árinu 2002. Minni skattstofnar, lægri tekjur og breytt álagning eiga þátt í þessum breytingum.
Það er magnað að RÚV skuli flytja svona “frétt” sem augljóslega er matreidd af hagsmunaaðila fyrir fréttastofuna og fær ekki staðist. Ekki er rætt við neinn hlutlausan aðila, eins og Ríkisskattstjóra, Hagstofu Íslands, ráðuneyti né fræðimenn.
Ef Þjóðhagsstofnun væri enn starfandi hefði t.d. verið kjörið að leita til hennar um álit á málinu og forðast svona áróður undir yfirskini frétta.
Niðurlagning Þjóðhagsstofnunar hefur haft þær afleiðingar að hagsmunaaðilar eiga mun auðveldara með að afbaka tölur en áður var og villa þannig um fyrir almenningi.
Staðreyndir víkja þannig í meiri mæli en áður fyrir blekkingum og áróðri. Það er leiðinlegt að sjá þetta gerast með svona afgerandi hætti á RÚV.
Fyrri pistlar