Í framhaldi af frétt RÚV í fyrradag um að skattahækkanir á hvern skattgreiðanda eftir hrun hefðu numið um 360 þúsund krónum skrifaði ég grein í gær sem sýndi að bæði heildartekjur hins opinbera og skatttekjur allar höfðu lækkað umtalsvert frá 2007 til 2011, bæði m.v. fast verðlag og sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.
Í dag sýni ég hvernig heildarskatttekjur hins opinbera á hvern íbúa í landinu þróuðust frá árinu 2000 til 2011. Tölurnar eru reiknaðar út frá opinberum tölum Hagstofunnar um tekjur hins opinbera og mannfjölda.
Mynd: Skatttekjur hins opinbera á hvern íbúa, á föstu verðlagi ársins 2011.
Skatttekjur hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga saman) voru 517,7 milljarðar árið 2011. Deilt niður á íbúa voru það að jafnaði 1.625.636 krónur á mann.
Hæstar urðu skatttekjurnar árið 2007, en þá voru þær um 655 milljarðar eða 2.129.160 á mann. Þetta eru allar skatttekjur, bæði beinir og óbeinir skattar.
Skatttekjurnar á íbúa lækkuðu sem sagt frá 2007 til 2011 um 503.524 krónur að jafnaði.
Skatttekjurnar eru árið 2011 svipaðar og hafði verið milli áranna 2003 og 2004.
Þetta rýmir illa við frétt RÚV um að auknar skattaálögur á hvern skattgreiðanda hafi numið 362 þúsund krónum á sama tímabili. Inn í reiknidæmi RÚV vantar allar lækkanir á skattheimtu sem urðu á sama tíma. Þetta passar hins vegar ágætlega við aðra frétt sem RÚV var með í gær um lækkun opinberra útgjalda eftir hrun.
Skatttekjur lækkuðu eftir hrun vegna minni skattstofna (minni neyslu og lægri tekna) og breyttrar álagningar. Skattbyrði hækkaði í efri tekjuhópum en lækkaði hjá lægri tekjuhópum.
Þetta eru staðreyndirnar.
Þarf RÚV ekki að leiðrétta svona villandi frétt?
Fyrri pistlar