Mánudagur 08.10.2012 - 00:15 - FB ummæli ()

Styrmir velur formann Samfylkingar

Á meðan Sjálftæðisflokkurinn hafði nánast ofurvald á Íslandi, þ.e. á áratugunum sex fram að hruni, reyndu áhrifamenn þar oft líka að stýra vinstri flokkum – og jafnvel kljúfa þá. Þetta byggðist meðal annars á miklum áhrifum Morgunblaðsins á þeim tíma.

Stundum voru vinstri menn þó alveg fullfærir um að sundra sér sjálfir.

Þá sjaldan að vinstri stjórnir sátu í stjórnarráðinu voru Moggamenn yfirleitt fljótir að sjá hvar veika hlekki var að finna í meirihlutanum. Þeim var hampað í blaðinu og stefnt gegn samherjum og stjórninni. Þannig tókst oft að kljúfa slíkar stjórnir áður en kjörtímabilið var liðið – og þar með fella stjórnina.

Þetta hafa Sjálfstæðismenn reynt linnulaust allt núverandi kjörtímabil og náð nokkrum árangri í að magna klofning og sundrungu innan VG. Kvótakóngar Sjálfstæðisflokksins réðu Davíð Oddsson sem ritstjóra Morgunblaðsins einmitt vegna þess að þeir töldu hann geta beitt blaðinu til að reka ríkisstjórnina frá völdum á nokkrum mánuðum (þetta er haft eftir manni úr hópi eigenda Morgunblaðsins).

Samt hefur enn ekki tekist að fella stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur! Núverandi stjórn virðist geta orðið fyrsta vinstri stjórnin til að sitja út kjörtímabilið. Sennilega er áhrifavald Moggans og Davíðs Oddssonar orðið of lítið til að hrekja stjórnina frá völdum.

Styrmir Gunnarsson var listamaður í slíkri herfræði þegar hann var ritstjóri Morgunblaðsins. Hann reynir ennþá að stýra andstæðingum Sjálfstæðisflokksins í pistlum sínum á Evrópuvaktinni,  með gömlu töktunum sínum.

Allt síðasta árið hefur Styrmir hamast við að koma Jóhönnu Sigurðardóttur úr formannssæti í Samfylkingunni, með skrifum sínum. Hann taldi greinilega að það þjónaði hagsmunum Sjálfstæðisflokksins að Jóhanna myndi ekki leiða Samfylkinguna í næstu kosningum.

Nú vill Styrmir fá að velja næsta formann Samfylkingarinnar og hefur þegar tilkynnt val sitt (sjá hér). Hann vill Árna Pál Árnason.

Í pistli sínum í gær skipar hann Árna Páli að hefja stórsókn gegn Katrínu Júlíusdóttur – nú þegar! Hann segir líf eða dauði Árna Páls í stjórnmálum vera í húfi. Árni Páll verði að fella Katrínu í prófkjöri og megi engan tíma missa.

Síðan leggur hann Árna Páli línuna í pólitík með eftirfarandi hætti:

“Er það rétt mat, sem m.a. hefur komið fram hér á Evrópuvaktinni að hann vilji draga Samfylkinguna aftur inn á miðjuna?

Er það rétt mat, sem m.a. hefur komið fram hér á Evrópuvaktinni, að hann vilji hægja á aðildarumsókninni?

Hver er afstaða hans til fiskveiðistjórnarmála? Hversu langt vill hann ganga í breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu?

Hver er afstaða hans til stjórnarskrármálsins? Er hann með eða á móti þeim tillögum, sem svonefnt stjórnarskrárráð hefur sett fram?

Hver er afstaða hans til frekari uppbyggingar stóriðju? Vill hann halda áfram að standa á bremsunum eða stíga benzínið í botn?“

Þessi texti Styrmis hljómar eins og upphaf fyrsta fundar í stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar! Þessir punktar rúmast raunar allir í einni setningu: Hversu lang í átt að stefnu Sjálfstæðisflokksins er Árni Páll tilbúinn að ganga?

Það er þannig ljóst að Styrmir telur Árna Pál henta markmiðum Sjálfstæðisflokksins afar vel. Markmið Sjálfstæðisflokksins að þessu leyti eru einkum tvenns konar:

  • Að Samfylkingin verði ekki of stór og ógni ekki forræði Sjálfstæðisflokksins
  • Að Samfylkingin geti verið hentugur valkostur til að þjóna sem hækja í stjórn með Sjálfstæðisflokknum (ef Framsókn verður ekki nógu stór)

Það er athyglisverð spurning hvort þetta inngrip Styrmis og annarra Sjálfstæðismanna verði framboði Árna Páls til framdráttar innan Samfylkingarinnar?

Vonandi er þó sjálfstraust Samfylkingarfólks orðið nógu sterkt til að láta svona skrif Sjálfstæðismanna sem vind um eyru þjóta.

Það var stefna Sjálfstæðisflokksins sem öðru fremur orsakaði hrunið. Flokkurinn hefur þó í engu breytt þeirri stefnu. Samfylkingin gerði stór mistök í stjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokki frá 2007 til 2008, meðal annars með því að eftirláta honum alla helstu þætti fjármála og efnahagsstjórnarinnar – allt það sem hrundi.

Samfylkingin sætti sig m.a. við að viðskiptaráðherra hennar væri áhrifalaus á ögurstundu, vegna þess að það var fyrir neðan virðingu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra að tala við hann.

Samfylkingin hefur hins vegar náð góðum árangri í núverandi stjórn.

Það væru því söguleg mistök ef Samfylkingin kokgleypti stefnu Sjálfstæðisflokksins og gengi í björg hans eftir næstu kosningar, eins og Framsóknarflokkurinn gerði frá 1995 til 2007.

Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem þarf að laga sig að stefnu annarra – eftir að hann hefur lokið alvöru iðrun og endurhæfingu sinni.

Hvernig má það annars vera að Sjálfstæðisflokkurinn telji að aðrir flokkar eigi að beygja sig undir stefnuna sem brást svo herfilega?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar