Þriðjudagur 23.10.2012 - 11:18 - FB ummæli ()

Hvað gerir Valhöll?

Baráttan fyrir lýðfrelsi og mannréttindum í Evrópu og Norður Ameríku er nátengd stjórnarskrármálum.

Þegar Magna Carta stjórnarskráin var innleidd í Englandi árið 1215 var meginmarkmið hennar að takmarka vald konungsins í höllinni og skapa héraðshöfðingjum aukið sjálfstæði og vörn gegn geðþóttalegri beitingu konungsvaldsins.

Þó enn séu í gildi í Englandi ákvæði úr Magna Carta hafa seinni tíma stjórnarskrár verið víkkaðar út og snúast sífellt meira um að færa réttindi til almennings. Upphafsorð bandarísku stjórnarskrárinnar, “We the people…”, er einmitt táknrænt fyrir þessa breyttu og nútímalegri áherslu réttindamálanna. Réttindin eiga að vera fyrir alla og fólkið á að ráða.

Raunar má segja að í lýðræðislegum stjórnarskrám sé lagður grundvöllur að réttindakerfi laganna og almannahagur í vaxandi mæli varinn gegn sérhagsmunum yfirstétta. Þetta hefur verið langtímabarátta og hægfara þróun, vegna þess að yfirstéttir veita iðuglega viðnám gegn breytingum. Yfirstéttir vilja síður gefa eftir völd sín og forréttindi.

Að þessu leyti er baráttan fyrir nýrri stjórnarskrá á Íslandi barátta fyrir bættri stöðu almennings gegn ásókn sérhagsmuna eftir auðlindum lands og sjávar og eftir áhrifavaldi í samfélaginu.

Þetta er enn barátta almennings gegn valdhafanum í “höllinni”.

Á Íslandi er það Valhöll Sjálfstæðisflokksins sem er hið táknræna setur gamla valdsins, höfuðból sérhagsmuna og yfirstéttarinnar. “Musterið sjálft”, eins og landskunnur lögreglumaður sagði um Valhöll fyrir skömmu, í augljósri andakt yfir því að vera kominn inn í höllina í fyrsta sinn.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á laugardag er þetta orðið skýrara en áður var. Almenningur hefur kveðið upp sinn dóm og talað skýrt. Fólkið vill nýja breytta stjórnarskrá – en Valhöll er því andvíg.

Á þingi virðist líka vera stór meirihluti fyrir því að ný stjórnarskrá verði unnin úr tillögum stjórnlagaráðs og lögð fullbúin fyrir almenning samhliða þingkosningum að vori. Það eru helst Sjálfstæðismenn sem hafa talað gegn því.

Þegar þjóðfélag er komið svo langt í lýðræðisátt að almenningur geti í reynd ráðið útkomu svona máls, með meirihlutaatkvæði kjósenda, er spurning hvernig gamla valdið í höllinni á að bregðast við?

Á það að berjast áfram gegn almannahag og fyrir sérhagsmunum sínum eða beygja sig undir vilja meirihluta almennings? Eða á gamla valdið að bjóða sátt og samvinnu og leita málamiðlana?

Fyrst það er góður meirihluti fyrir framgangi og lúkningu málsins á þinginu í vetur virðist sem að með harðsvíraðri andstöðu sé Valhöll dæmd til að tapa. Leit eftir samvinnu og málamiðlun virðist því rökréttari afstaða.

Þess vegna vekur það athygli þegar kóngurinn í Valhöll, Bjarni Benediktsson, tekur línuna frá ritstjóra Morgunblaðsins og hirð hans og gefur almenningi langt nef. Segir þjóðaratkvæðagreiðsluna ómarktæka og kallar hana öllum illum nöfnum. Finnur málinu allt til foráttu.

Fyrstu viðbrögð við ósigrinum á laugardag benda þannig til að Valhöll ætli að berjast til síðasta manns – gegn ofureflinu. Það er kanski ósk kvótagreifanna.

Ég spái því þó að hófstilltari menn í Sjálfstæðisflokknum grípi í taumana og bjóði samstarf og leiti sátta. Talsmenn sigursins eru allir boðnir og búnir að fyrirgefa Valhöll andstöðuna og bjóða fram sáttavilja. Svigrúm fyrir málamiðlanir er að vísu þröngt, en samt eitthvert.

Þó það sé súrt fyrir Valhöll að játa sig sigraða er það líklega skynsamlegri kostur – jafnvel eina leiðin.

Hins vegar hefur maður áhyggjur af þeirri róttækni og óbilgirni sem hefur grafið um sig í hinum nýja Sjálfstæðisflokki frjálshyggjutímans, ekki síst á Morgunblaðinu. Þar virðast of margir vera reiðubúnir að ganga fyrir björg á grundvelli hinna ólíkindalegustu raka og sérhagsmuna.

Vonandi hefur skynsemin og sáttin þó yfirhöndina í Valhöll sem annars staðar í samfélaginu.

Það er best fyrir Ísland.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar