Það er fróðlegt að bera saman skuldaþróunina hjá okkur Íslendingum og tveimur öðrum kreppuþjóðum: Grikkjum og Írum.
Fyrri myndin sýnir brúttóskuldir hins opinbera (ríki, sveitarfélög og almannatryggingar) sem hlutfall af landsframleiðslu. Þetta eru nýjustu tölur frá Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) og ná til ársloka 2011.
Mynd 1: Opinberar skuldir alls, sem % af landsframleiðslu. Heimild: Eurostat
Skuldaþróunin er hrikalegust í Grikklandi, fór frá 113% af landsframleiðslu 2008 upp í 171% í árslok 2011. Á eftir að aukast enn meira.
Á Íslandi voru skuldir hins opinbera um 29% árið 2007 og ruku svo upp með hruninu, í 70% 2008 og 88% árið 2009 – og svo áfram vegna hallans á fjárlögum upp í 99% árið 2011.
Írar byrjuðu hins vegar með minni skuldir en við, en eru nú árið 2011 komnir fram úr okkur.
En hvernig eru svo horfurnar fyrir næstu ár?
Seinni myndin gefur vísbendingu um það, því þar er sýnt hversu stór hallinn er á fjármálum hins opinbera (sem % landsframleiðslu).
Mynd 2: Halli á búskap hins opinbera, sem % af landsframleiðslu. Heimild: Eurostat
Hér er athyglisvert hversu mikið hallinn hefur lækkað á Íslandi árið 2011, langt niður fyrir hinar þjóðirnar. Við stefnum í að komast út úr hallarekstri á næsta eða þarnæsta ári og hættum þá að safna frekari skuldum.
Að því leyti eru horfurnar bestar hjá okkur.
Grikkir fóru hæst í 15,6% en hafa lækkað í 9,4% árið 2011 og eru samt fjarri því að vera komnir út úr hallarekstri. Horfurnar eru enn slæmar þar.
Hjá Írum er staðan hins vegar verst hvað hallarekstur varðar. Þeir fóru langhæst árið 2010 í 30,9% halla, vegna bankabjörgunarinnar. Þeir voru enn með 13,4% halla í árslok 2011, þ.e. eins og Ísland fór hæst árið 2008.
Írar eru sem sagt enn á þeim stað sem við vorum á árið 2008.
Þetta segir okkur að Írar eiga eftir að fara talsvert framúr okkur í skuldasöfnun hins opinbera á allra næstu árum.
Þetta eru allt tölur frá Eurostat, eins reiknaðar og byggðar á því sem fyrir liggur. Ef okkur farnast illa fyrir EFTA dómstólnum með Icesave-málið verður staðan væntanlega verri hér en þarna er sýnt.
Vonandi fer það þó ekki á versta veg.
Nægur verður samt vandinn við að greiða þetta niður.
Fyrri pistlar