Laugardagur 27.10.2012 - 23:17 - FB ummæli ()

Íslendingar eru ein skuldugasta þjóð heims

Um daginn sýndi ég skuldaþróunina á Íslandi, Írlandi og í Grikklandi. Í dag sýni ég skuldabyrði íslenska ríkisins (ríki og sveitarfélög) í samanburði við flestar aðrar Evrópuþjóðir og Bandaríkin árið 2011.

Síðan skoðum við skuldir heimila og fyrirtækja í nokkrum löndum, í seinni huta greinarinnar.

Fyrst eru hér skuldir hins opinbera, sem % af landsframleiðslu. Þetta eru nýjustu tölur Eurostat og bandarísku hagstofunnar.

Mynd 1: Skuldir hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) sem % af landsframleiðslu 2011.

Hér má sjá að Ísland var í lok árs 2011 í 5.-6. sæti af þessum þjóðum, jafnfætis Bandaríkjunum. Auk Grikklands og Írlands eru Ítalía og Portúgal fyrir ofan okkur.

Eins og ég sýndi í gær eru horfurnar í þessum löndum verri en á Íslandi þannig að búast má við að skuldir þjóðanna sem eru fyrir ofan okkur eigi eftir að hækka meira en skuldir okkar.

Þjóðir sem eru rétt fyrir neðan okkur virðast líklegar til að fara fram úr okkur í skuldastigi hins opinbera á næstu árum. Það á við um lönd eins og Belgíu og jafnvel Frakkland og Bretland. Samt eru opinberar skuldir okkar mjög miklar.

Athyglisvert er að Eystrasaltslöndin (Eistland, Lettland og Litháen), sem öll fóru djúpt í kreppuna, skulda mun minna en við og Írar. Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum skulda allar innan við helming af því sem opinberar skuldir okkar eru.

Eitt eru skuldir hins opinbera, sem við þurfum að bera sem skattgreiðendur. Hitt eru skuldir heimilanna. Næst skoðum við þær í nokkrum löndum.

Mynd 2: Skuldir heimila sem % af ráðstöfunartekjum þeirra, 2000-2012. (Heimild: Seðlabanki Íslands, Fjármálastöðugleiki).

Hér má sjá hvernig skuldir heimilanna á Íslandi jukust mjög ört umfram ráðstöfunartekjurnar frá 2004 og alla leið til 2010, en hafa lækkað síðan þá. Árið 2010 vorum við með hæsta skuldahlutfall heimilanna, en 2012 erum við komin rétt niður fyrir það sem var í Danmörku og Hollandi á árinu 2010.

Heimilin í Danmörku eru álíka skuldug og á Íslandi, en hið opinbera í Danmörku skuldar mun minna en íslenska ríkið.

Hér má líka sjá að heimilin á Írlandi eru mjög skuldur – en þó ekki eins og þau íslensku.

Þegar við skoðum allt saman: skuldir hins opinbera, skuldir heimila og loks einnig skuldir fyrirtækja (sem ég hef skrifað um hér), þá sjáum við að Ísland er eitt allra skuldugasta land heims nú á dögum.

Það er þrátt fyrir að mikið hafi verið skrifað niður af skuldum þjóðarbúsins, mest vegna gjaldþrots bankanna (þá töpuðu erlendir lánadrottnar þeirra um fjór- til fimmfaldri landsframleiðslu), en einnig voru skuldir lækkaðar í skuldaúrvinnslu eftir hrun.

Strax árið 2004 var Ísland orðið skuldugasta land í heimi (sjá hér). Síðan jukust heildarskuldir þjóðarbúsins mikið fram að hruni, upp í áttfalda til nífalda landsframleiðslu. Nú eru heildarskuldir þjóðarbúsins um fjórar landsframleiðslur (ríkið með um eina, heimilin með rúmlega eina, fyrirtækin eru með skráðar á sig tæpar tvær: samtals um fjórar landsframleiðslur). Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í Silfri Egils í dag að heildarskuldir þjóðarbúsins væru nú um fimm og hálf landsframleiðsla, en þá telur hann til viðbótar við ofangreint einnig skuldir þrotabúa bankanna, en þær verða að talsverðu leyti strikaðar út í þrotameðferðinni.

Það var einmitt óhófleg skuldasöfnunin sem setti Ísland á hliðina með bankahruninu.

Skuldir eru þannig ein helsta arfleifð frjálshyggjutímans, frá 1995 til 2007. Hámarki náði braskið og skuldasöfnunin á árunum eftir 2000.

Frjálshyggjunni tengdist aukið frelsi á fjármálamarkaði, óheftur kapítalismi, afskiptaleysisstefna og verulega aukin græðgi. Mikið framboð af fjármagni á alþjóðlegum fjármálamarkaði eftir 2001 fól í sér allt of miklar freistingar fyrir gráðuga og  agalausa Íslendinga, sem sökktu sér á kaf í skuldir.

Mesta ábyrgð báru bankamenn og braskarar fyrirtækjaheimsins.

Heimilin voru leiksoppar þeirra.

Þeir sem áttu að tryggja fjárhagslegan stöðugleika og verja heimilin (Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og ríkisstjórnir) brugðust í einu og öllu.

Almenningur situr uppi með afleiðingarnar – eitt skuldugasta ríki heims, ein skuldugustu heimili Vesturlanda og ein skuldugustu fyrirtæki heims.

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar