Miðvikudagur 31.10.2012 - 16:34 - FB ummæli ()

Frjálshyggjan breytist í hippahreyfingu

Róttækir frjálshyggjumenn hafa verið í tilvistarkreppu eftir hrun.

Allir sjá að frjálshyggjan leiddi ekki bara Íslendinga út í stærsta hrun sögunnar heldur gat hún einnig af sér hina alþjóðlegu fjármálakreppu.

Gamla frjálshyggjan sem Milton litli Friedman, Friðrik von Hayek og frú Margrét Thatcher kenndu Hannesi og strákunum í Eimreiðinni gengur ekki lengur.

Almenningur vill ekki of mikið dekur við auðmenn, ójöfnuð, einkaeign náttúruauðlinda, skattalækkanir handa auðmönnum, niðurskurð velferðarkerfisins, né “frelsi” sem gagnast engum nema moldríkum körlum!

Almenningur vill eitthvað huggulegra og heilbrigðara.

Hinir bestu menn frjálshyggjunnar hafa séð þetta um hríð og lögðu til yfirhalningu á frjálshyggjunni (“extreme makeover”): nýja ímynd og nýja hugmyndafræði. Eitthvað sem væri vænlegt til vinsælda á kosningavetri. Niðurstaðan var kynnt um daginn.

Í stað íhaldssamrar myndar af Margréti Thatcher í grárri dragt með handtöskuna frægu, mun fagur og friðelskandi hippi verða nýtt vörumerki frjálshyggjufélagsins. Hér að neðan má sjá hina nýju táknmynd frjálshyggjunnar á Íslandi, sem verður lógó á bréfsefni og vefsíðum frjálshyggjumanna:

Félag frjálshyggjuróttæklinga efndi líka til ritgerðarsamkeppni um nýja og söluvænni hugmyndafræði. Gunnlaugur Jónsson, sem er einn af ættarlaukum Eimreiðarinnar, hlaut verðlaunin, en það var skemmtiferð á mykjudreifara amx-samsteypunnar upp í musterið í Hádegismóum. Þar tók hann við verðlaunum að viðstöddu fámenni.

Gunnlaugur skrifaði alveg nýja hugmyndafræði í stað vúdú-hagfræðinnar og klappstýrutakta fyrir auðmenn sem Hannes Hólmsteinn hefur rappað í gegnum tíðina. Gunnlaugur sótti tema sitt einkum til hins vinstri sinnaða taóista Dalai Lama og í 50 ára gamla stefnuskrá hippahreyfingarinnar í Kaliforníu.

Í stað trylltra dansa fjármálamanna í kringum gullkálfinn er nú lagt upp með innhverfa íhugun og afneitun efnishyggju, lífsgæðakapphlaups og fjármálavafninga. Í stað auðhyggjunnar er kominn friðarboðskapur hippanna. Maður bíður bara eftir að hagvöxtur og jakkaföt verði sögð af hinu illa!

Gunnlaugur segir að frjálshyggjan sé “hin eina friðsama stjórnmálastefna”. Allir aðrir en frjálshyggjumenn eru ofbeldismenn! Það vissuð þið ekki, lesendur góðir – enda er þetta í fyrsta sinn sem slíkt er fullyrt í heiminum…

Áfram heldur Gunnlaugur:  “… það er ekki hægt að vera á móti ofbeldi án þess að vera frjálshyggjumaður. Annað hvort þarf fólk að samþykkja frjálshyggju eða viðurkenna að það sé hlynnt ofbeldi”. Þetta eru sem sagt valkostirnir!

Reyndar afarkostir.

Hmmmm… þar fór frelsið fyrir lítið.

Allt sem ríkið gerir til að stjórna og bæta í nafni lýðræðis er ofbeldi, segir Gunnlaugur líka. Þarna er einmitt mikill samhljómur með afskiptaleysisstefnu frjálshyggjunnar og óskum hippanna um að mega segja sig úr samfélaginu og lifa sínu lífi í faðmi náttúrunnar, reykja súrhey og svífa í friðardraumum, óháð veraldlegum hrammi ríkisvaldsins.

Gunnlaugur segir frjálshyggjumenn líka vera “einu varanlegu bandamenn undirokaðra hópa” og nefnir til sögunnar konur í frelsishug, homma og lesbíur, og loks svarta þræla sem vilja frelsi. Hér vantar að vísu mikið upp á staðreyndirnar, því frjálshyggjumenn eru einmitt þekktir fyrir að sniðganga nær algerlega undirokaða hópa og styðja margs konar undirokun, bæði fyrr og síðar.

Til dæmis vilja frjálshyggjumenn aldrei gera neitt fyrir fátæka og þegar svartir þrælar börðust fyrir frelsi sögðu frjálshyggjumenn að það væri brot á eignarrétti þrælahaldaranna. Ef láglaunafólk vill stofna launþegafélög til að semja um hærra kaup er það kallað brot á athafnafrelsi auðmanna. Sams konar rök um eignarrétt nota þeir um kvótakerfið í íslenskum sjávarútvegi, til að réttlæta að auðmenn einir megi eiga auðlind sem er í reynd þjóðarinnar.

En hvaða máli skipta smá staðreyndavillur þegar jákvæða ímynd skal byggja?!

Lokaorð Gunnlaugs eru þessi: “Góðir frjálshyggjumenn, við höfum verk að vinna – en við höfum sterkara vopn í höndum en nokkur annar: kærleikann”.

“All you need is love!”, sögðu hipparnir einmitt.

Annars staðar upplýsir Gunnlaugur þó um hvað málið snýst í raun, þegar hann segir: “En ég held að það sé (…) skýrara að tala um frelsið sem hinn gullna meðalveg. Þá er líka aldrei að vita nema við fáum einhverja góða framsóknarmenn til liðs við okkur!”

Þar kom það svart á hvítu: Þetta er sem sagt kosningastrategía hjá frjálshyggjumönnum. Draga upp nýja ímynd og nýtt yfirbragð hugmyndafræðinnar til að auka fylgið. Fela þá staðreynd að frjálshyggjan snýst mest um að bæta hag auðmanna, oftast á kostnað almennings. Segja frekar að svart sé hvítt og boða frið og ást – í stað græðginnar sem er undirrótin.

Þetta er svipuð hugmynd og kom fram hjá Hannesi Hólmsteini fyrir kosningar 2007. Þá skrifaði hann tvær greinar um frjálshyggju. Í annarri fullyrti hann að frjálshyggja væri jafnaðarstefna og því til vinstri. Í hinni sagði hann frjálshyggju vera umhverfisvæna og græna stefnu.

Hannes sagði þannig frjálshyggjuna vera “vinstri-græna” stefnu! Þetta þótti sprenghlægilegt. Menn munu sjálfsagt skemmta sér álíka vel eða betur yfir hinni nýju ímynd frjálshyggjumanna sem friðelskandi hippar!

Hvað um það. Gunnlaugi þótti mælast vel og félagið bauð í pípu að loknum aðalfundarstörfum. Mantra friðar og ásta sveif um loftin.

Hér má sjá kónginn í Hádegismóum í nýjum búningi sem frjálshyggjufélagið afhenti honum, til að marka þessi stóru tímamót – þegar frjálshyggjan breyttist í hippahreyfingu.

Peace brother!  Make love – not war!

 

 

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar