Fimmtudagur 15.11.2012 - 09:18 - FB ummæli ()

Jakinn snýr aftur!

Ég fór á fund Hagsmunasamtaka heimilanna um verðtrygginguna í Háskólabíói í gærkvöldi. Vildi fá botn í hvað væri á seyði.

Ég skildi satt að segja lítið í viðamikilli auglýsingaherferð sem samtökin höfðu keyrt í viku fyrir fundinn, með gríðarlegum tilkostnaði. Mér fannst þetta því nokkuð spennandi. Bjóst við nýjum uppljómunum um verðtrygginguna og skuldavandann, en það var ekki á boðstólum.

Pétur Blöndal var fyrstur fyrirlesara og sagði að hann hefði verið beðinn um að verja verðtrygginguna, en kvaðst ekki geta það því hann væri á móti henni.

Í lok fundarins var svo borin upp tillaga um að ríkisstjórnin beitti sér fyrir afnámi verðtryggingar. Flestir fundarmanna voru því hlyntir.

Einn var andvígur og vildi halda í verðtrygginguna: Pétur Blöndal!

Það var annars þungt í fundarmönnum og augljóst að skuldavandinn liggur enn eins og mara á þjóðinni. Því miður var umræðan um verðtrygginguna ekki uppbyggileg né líkleg til að leiða til lausna. Enda getur ríkið ekki borgað umtalsverða niðurfellingu skulda og lítið er um fé-án-hirðis sem hægt er að grípa til, eins og fyrir hrun.

Steingrímur J. Sigfússon var fulltrúi raunsæisins en reifaði þó athyglisverða hugmynd um breytta vísitölutengingu lána við laun og verðlag í senn – heimilunum til hagsbóta. Einn fundargesta lagði til að Íbúðalánasjóður leigði út þær tvö þúsund íbúðir sem hann á og standa tómar. Enginn skilur hvers vegna það er ekki löngu búið og gert…

Það sem vakti þó mesta athygli mína var frammistaða Vilhjálms Birgissonar, verkalýðsleiðtoga af Akranesi. Hann er sjálfur kominn í mál við verðtrygginguna og talar um vandann og aðgerðarleysi ASÍ forystunnar á mannamáli, með djúpum þunga sem minnir á Guðmund Jaka, fyrrverandi formann verkamannafélagsins Dagsbrúnar.

Verkalýðsleiðtogi getur varla náð lengra en að líkjast Guðmundi Jaka. Og Vilhjálmi var vel tekið í bíóinu. Fólk stóð á fætur og klappaði þegar hann brýndi raustina.

Vilhjálmur er verkalýðsleiðtogi af gamla skólanum. Honum finnst að kaupið eigi að vera hærra, skuldir heimilanna viðráðanlegar og vinnukjörin betri – og hann veit hverjir bera ábyrgð á því að svo er ekki. Lætur í sér heyra.

Það er nostalgía sem fylgir því að sjá svona alvöru verkalýðsleiðtoga nú á dögum. Raunar er það fátíð sjón. Verkalýðshreyfingin er almennt hætt að hugsa um kauphækkanir og styttingu vinnutíma.

Hún er í staðinn orðin að eins konar gæslustofnun lífeyrissjóða. Verkalýðsleiðtogarnir hugsa nú eins og fjárfestar og þykjast vera miklir hagfræðingar. Svo hnýta þeir annað slagið í ríkisstjórnina út af aukaatriðum í samningum og væna hana um svik, einkum þegar atvinnurekendur veifa bláu höndinni.

Salurinn í Háskólabíói var á bandi Vilhjálms Jaka í gærkveldi.

Kanski hans tími sé kominn…

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar