Þriðjudagur 13.11.2012 - 12:31 - FB ummæli ()

Nýtt leikrit: Hipparnir í Hálsaskógi

Um daginn greindi ég frá því að Félag frjálshyggjumanna á Íslandi hefur átt í miklum ímyndavanda eftir hrun. Félagsmenn eru á örvæntingarfullum flótta undan fortíð sinni.

Þeir kynna sig nú sem eins konar hippahreyfingu. Segjast vera hinir einu sönnu friðarsinnar. Allir aðrir eru ofbeldisseggir, segja þeir.

Gunnlaugur Jónsson hefur farið fyrir þessari miklu endurskoðun á hugmyndafræði frjálshyggjunnar.

Gunnlaugur hefur til dæmis útfært nýja útgáfu af afskiptaleysisstefnu frjálshyggjunnar í anda innhverfrar íhugunar austurlenskra gúrú-manna, í bland við hugmyndafræði hippanna í Kaliforníu. Nægjusemi, ást, friður og umburðarlyndi eru ný kjörorð frjálshyggjunnar á Íslandi.

Þetta þykir frumleg heimspeki hjá Gunnlaugi, enda afskiptaleysisstefna frjálshyggjunnar áður þekkt fyrir allt sem er andstætt þessu: miskunnarleysi markaðarins, fégræðgi og heiftarlega einstaklingshyggju, eins og Ayn Rand boðaði.

Nú nýlega bætti Gunnlaugur um betur og sýndi á snjallan hátt hvernig norska leikritaskáldið Thorbjörn Egner er hinn vænsti frjálshyggjumaður – eða þannig. Raunar segir Gunnlaugur að Thorbjörn Egner sé helsti heimspekingur Norðmanna – fyrr og síðar. Grein sína kallar Gunnlaugur réttilega „Sannleikurinn er öfugur“!

Það vafðist nokkuð fyrir pistlahöfundi að skilja samhengið í þessari nýju kenningu Gunnlaugs, en hér eru nokkrar setningar frá honum sem ættu að skýra sig sjálfar:

“…frjálshyggjan byggist á andstöðu við ofbeldi að fyrra bragði. Þetta má útskýra með tilvísun til norskrar heimspeki. Frelsi Mikka refs til að borða hin dýrin í skóginum er ekki það frelsi sem frjálshyggjumenn styðja. Við styðjum þvert á móti frelsi Lilla klifurmúsar frá því að vera étinn. Þessu prinsippi beitum við bæði á einstaklinga og ríki. Ríkið má ekki heldur gera það sem Mikki refur má ekki.”

Þetta er athyglisvert! Klassískir frjálshyggjumenn, eins og Herbert Spencer og Milton Friedman, sögðu að lífið væri lífsbarátta í frumskógi, þar sem hver ætti að bjarga sér sjálfur. Þeir hæfustu, gráðugustu og duglegustu myndu lifa (e: survival of the fittest). Samkvæmt þessu hafði Mikki refur fullan rétt til að éta upp þá sem slappari eru, líkt og kapítalistar gera á markaði.

Ekki lengur, segir Gunnlaugur frjálshyggjumaður nýja tímans. Nú standa frjálshyggjumenn með lítilmagnanum. Spurningin er þá hvort framvegis verði nokkur þörf fyrir jafnaðarmenn vöggustofusamfélagsins, eins og tíðkast í Skandinavíu?!

Það verður þó að segjast að þrátt fyrir góðan vilja og ást á mannkyninu, þá á Gunnlaugur enn eftir að vinna þessari nýju frjálshyggju fylgi í ranni kapítalistanna. Aðrir myndu segja, að eitt sé ný ímynd frjálshyggjumanna og hitt að þeir fari eftir því sem þeir segja. Þeir séu snjallir auglýsingamenn og ímyndasmiðir, með lygina að helsta vopni.

Illkvittnir fræðimenn hafa til dæmis bent á, að gráðugir fjáraflamenn frjálshyggjunnar hafi étið upp allt fé þjóðarinnar á árunum fram að hruni, í anda Mikka refs, og sett með því þjóðarbúið á hausinn. Þeir sögðust hafa leyfi til að græða á daginn og grilla þjóðina á kvöldin!

„Ég á’etta – ég má’etta“, var kjörorðið.

Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið samþykktu það og sögðu í anda frjálshyggjunnar að það væri ofbeldi að banna þessum góðu mönnum að græða svona mikið og grilla á eftir. Auk þess hefðu þeir eignarrétt á aflafeng sínum. Þess vegna létu þeir það afskiptalaust að þjóðinni væri drekkt í skuldum – og því fór sem fór.

Það var hins vegar grímulaust ofbeldi þegar ríkisvald heilagrar Jóhönnu fór að endurreisa þjóðarbúið, eins og eitthvað hefði hrunið! Hið “svokallaða hrun” var bara réttlæting fyrir þjóðnýtingu banka og fyrirtækja og skattahækkun á grillmeistara landsins – að hætti vinstri villinga. Vart er hægt að hugsa sér meira ofbeldi. Þetta segir hin nýja frjálshyggja Lao-Tze og hippanna í Hálsaskógi.

Gunnlaugur er að vísu ekki enn búinn að greina hið mikla verk Kardemommubæinn, sem einnig er eftir heimspekinginn Thorbjörn Egner. Þar segir af skondnum ræningjum sem lögðu hald á eigur borgaranna í skjóli nætur –og lifðu af því góðu lífi. Höfðu ljón sér til varnar.

Sumir kynnu að láta sér detta í hug að þetta væri framferði sem einkenndi skjólstæðinga frjálshyggjunnar fyrir hrun. Margir frjálshyggjumenn voru einnig á kafi í skuldsettu braski og gripdeildaræði.

Ræningjarnir í Kardemommubæ héldu uppteknum hætti uns Soffía frænka kom í heimsókn, rændi þá frelsinu og kom þeim fyrir í tugthúsi. Síðan sá Soffía til þess að ræningjarnir voru siðaðir upp á nýtt og gerðir að nýtum borgurum, með endurhæfingu. Einn varð bakari, annar slökkviliðsmaður og sá þrijði starfaði við almannaþjónustu í turninum hans Tobba, ef ég man rétt. Allir bæjarbúar lifðu svo hamingjusamlega um ókomna tíð.

Skruggukerlingin Soffía er þarna í hlutverki ríkisvaldsins, sem hugsar um hag borgaranna allra og lagar það sem miður fer. Stöðvar rányrkju, endurhæfir óknyttamenn og veitir borgurunum öryggi.

Nú myndi Gunnlaugur að vísu kalla hegðun Soffíu frænku ofbeldi, í anda frjálshyggjunnar. Það verður því spennandi að sjá hvernig Gunnlaugur snýr þessu verki Torbjörns Egners yfir á málfar frjálshyggju-hippanna.

Styður hann frelsi ræningjanna eða ofbeldi Soffíu frænku?

Eða segir hann einfaldlega að allir eigi að elska alla – og þá verði allt sjálfkrafa í góðu lagi…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar