Miðvikudagur 19.12.2012 - 12:38 - FB ummæli ()

Fátækleg frjálshyggja

Birgir Þór Runólfsson, náinn samstarfsmaður Hannesar Hólmsteins og fyrrverandi stjórnarmaður í SpKef, hefur skrifað nokkra pistla um frjálshyggjuvísitölu og lífskjör á Eyjunni undanfarið.

Efnið sem hann er að miðla kemur frá amerísku frjálshyggjuveitunni Frazer Institute, sem er vettvangur hægri róttæklinga á ysta kanti frjálshyggjunnar.

Þessi áróðursveita hefur búið til talnaefni sem virðist sýna jákvætt samband milli frelsisvísitölunnar og fátæktar, sem sé þannig að þar sem frjálshyggjufrelsi sé meira þar sé fátækt minni og lífkjör almennt betri. Þessi samanburður Frazer-manna byggir á því að bera saman hagsælu ríkin á jörðinni við allra fátækustu ríkin. Með því fá þeir það sem kallar er sýndarfylgni (e: spurious correlation). Þetta er einfaldlega blekkingarleikur sem engir fræðimenn á sviðinu né alþjóðlegar hagskýrslustofnanir taka alvarlega.

Í gær fullyrti Birgir Þór að valkostir þjóða snérust um að hafa ójöfnuð og betri afkomu fátækra eða meiri jöfnuð og fátækt allra. Þetta er eins fjarri veruleikanum og hugsast getur. Raunar er það svo að þar sem ójöfnuður er meiri þar er fátækt oftast líka meiri – óháð almennu ríkidæmi þjóða.

Þannig eru þjóðirnar í Skandinavíu með mun jafnari tekjuskiptingu en Bandaríkin og aðrar enskumælandi þjóðir, sem gjarnan eru með háa frelsisvísitölu og meiri ójöfnuð. En samt eru skandinavísku þjóðirnar með góða hagsæld og afar litla fátækt! Það sama á við um margar þjóðir á meginlandi Evrópu.

Bandaríkin eru hins vegar með háa frjálshyggjuvísitölu, mikinn ójöfnuð og afar stóran hóp undir fátæktarmörkum, sem lifir oft við skilyrði sem eiga meira sameiginlegt með löndum þriðja heimsins.

Hvernig er samband frjálshyggjuvísitölunnar og fátæktar í OECD-löndunum, sem vitlegra er að bera saman, enda þjóðir sem eru á sambærilegra þróunarstigi? Niðurstöðuna má sjá á myndinni hér að neðan.

Samband milli hlutfalls íbúa undir fátæktarmörkum 2007 (súlurnar) og frjálshyggjuvísitölunnar (rauða línan). Gögn frá OECD og Heritage Foundation.

Þarna eru notaðar nýjustu tölur OECD um fátækt, sem algengast er að nota í þróuðu löndunum. Fyrir fátækustu þróunarlöndin eru frekar notaðar upplýsingar um fjölda fólks sem hefur minna en 1-2 dollara á dag til framfærslu, en slík mæling hefur litla meiningu í hagsælu ríkjunum á Vesturlöndum.

Eins og sjá má á myndinni er ekkert samband milli frjálshyggjuvísitölunnar og umfangs fátæktar í OECD-ríkjunum (reiknuð fylgni er 0,000 – þ.e. engin!). Því fer fjarri að þjóðirnar sem eru með minni fátækt séu með hærri frjálshyggjuvísitölu (eða “meira frelsi” eins og Birgir Þór kýs að kalla það! Þessi vísitala mælir hins vegar einungis frelsi fjárfesta – en ekkert venjulegt frelsi fólks).

Fátækt í hagsældarríkjunum er raunar minnst þar sem velferðarríkið er öflugast og tekjuskiptingin jafnari.

Bandaríkin, draumaland frjálshyggjumanna, er hins vegar með ótrúlega mikið umfang fátæktar miðað við ríkidæmi þjóðarinnar. Þar fer saman há frjálshyggjuvísitala, mikill ójöfnuður og mikil fátækt. Þetta vita allir (sjá t.d. hér).

Kjör ríka fólksins eru hins vegar afar góð í Bandaríkjunum, ekki síst hinna ofurríku sem taka óvenju stóran hluta þjóðartekna til sín (sjá hér). Þess vegna er minna eftir handa fátækum þar í landi.

Veruleikinn er sem sagt algjörlega öndverður við þann boðskap sem frjálshyggjumaðurinn Birgir Þór kynnir, í boði amerískrar áróðursveitu.

Þannig treður frjálshyggjumaðurinn upp sem falsspámaður – á sjálfri jólaföstunni!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar