Mánudagur 25.02.2013 - 09:50 - FB ummæli ()

Sérstaða VG í íslenskum stjórnmálum

Að sumu leyti má segja að lítill munur sé á stefnu eða sjónarmiðum miðjuflokkanna á Íslandi: Bjartrar framtíðar, Dögunar, Framsóknarflokks, Hægri grænna, Lýðræðisvaktar og Samfylkingar. Auðvitað er afstaða til einstakra mála ólík, t.d. ESB aðildar, en á heildina litið ber frekar lítið í milli.

Við sem erum á miðjunni í pólitíska litrófinu eigum ansi marga valkosti, en spurning er hvort kröftunum sé ekki dreift um of með smáflokkaframboðum, sem sum hver eru á veikum grunni?

Yst í pólitíska litrófinu, bæði á vinstri og hægri væng, eru hins vegar meiri frávik. VG og Sjálfstæðisflokkurinn skera sig úr. VG er hinn skýrasti vinstri flokkur á Íslandi en Sjálfstæðisflokkurinn er fulltrúi róttækrar hægri frjálshyggju, í bland við þjóðernislega íhaldssemi og sérhagsmunagæslu fyrir yfirstéttina.

Sérstaða VG liggur ekki aðeins í því að vera lengst til vinstri, heldur eru ríkar áherslur þeirra á umhverfisverndarmál, græna hagkerfið og jafnrétti kynjanna afar mikilvægar og sérstakar.

VG-menn voru líka þeir einu á Alþingi sem vöruðu alvarlega við efnahagsstefnunni og fjármálaþennslunni á árum bóluhagkerfisins, þegar frjálshyggja,  græðgi og skuldasöfnun keyrðu úr hófi.

Betra hefði verið ef ráðum VG-fólks hefði verið fylgt á þeim óheillaárum.

Staða VG í könnunum hefur verið erfið undanfarið. Það er viðbúið að stjórnarflokkar sem sitja í gegnum erfiða kreppu láti á sjá í vinsældarmælingum, því margir hafa undan miklu að kvarta á krepputímum. Þeir beina óánægju sinni gjarnan að sitjandi ríkisstjórn, þó orsök vandans liggi annars staðar.

Þannig voru það t.d. fjármálabraskarar og atvinnurekendur sem settu Ísland á hliðina með geigvænlegri skuldasöfnun fyrir hrun – en almenningur kennir ríkisstjórninni sem tók við hrundu búi um hvernig allt er. Það er ósanngjarnt, en því miður algengt.

Sundrung í eigin röðum varð VG einnig dýrkeypt. Of margir VG-liðar féllu fyrir því áróðursbragði Sjálfstæðismanna að kalla aðildarviðræðurnar „aðlögunarviðræður“. Það var út í hött. Ekkert var rangt við þá leið að kanna hvað aðild gæti falið i sér og leyfa þjóðinni að taka afstöðu til niðurstöðunnar – um leið og VG-fólk gat verið andvígt aðild, jafnvel þó góðir kostir væru í boði.

Þeir sem taka að sér að stjórna eftir fjármálahrun og almennt í djúpri kreppu sjá gjarnan vinsældir sína gufa upp á nokkrum mánuðum eða misserum. Þetta höfum við ítrekað séð í kreppuhrjáðum Evrópulöndum undanfarið.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa ekki farið varhluta af slíkri þróun. Þau mælast með lítinn stuðning í könnunum, þó almennt séu þau talin hafa staðið sig afar vel. Bæði hverfa nú úr forystusveit sinna flokka. Það býður upp á endurnýjun, sem skapar flokkum þeirra betri tækifæri í kosningunum.

Athyglisvert er að Bjarni Benediktsson er þó með minni stuðning og traust í nýjustu könnun en bæði Jóhanna og Steingrímur! Hann situr þó áfram – en augljóslega sem afar veikur leiðtogi í sínum flokki.

Katrín Jakobsdóttir mun án efa styrkja stöðu VG í komandi kosningum, enda er hún sérstaklega geðþekk manneskja og álitlegur stjórnmálamaður. Góður hugur og eining virðist hafa ríkt á landsfundi VG um helgina, þrátt fyrir að Evrópumálin séu VG erfið.

Það má því búast við að staða VG geti vænkast í aðdraganda kosninganna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar