Laugardagur 02.03.2013 - 13:37 - FB ummæli ()

Fátækt – tvær ólíkar mælingar

Hægt er að mæla fátækt á marga vegu. Enda er fátækt margbrotið fyrirbæri sem kemur fram með ólíkum hætti í mismunandi aðstæðum. Sjá nánar um það í athyglisverðri nýrri skýrslu um fátækt (hér).

Ólíkar mælingar gefa hins vegar ólíkar niðurstöður um umfang fátæktar í samfélaginu. Þess vegna er alltaf best að meta fátækt út frá sem flestum viðmiðum og nota mismunandi mælikvarða samhliða.

Hér að neðan sýni ég tvær algengar mælingar á fátæktarþrengingum sem mikið eru notaðar nú á dögum: afstæð fátækt annars vegar (stærð hópa undir fátæktarmörkum, sem eru oftast skilgreind sem 50% eða 60% miðtekna) og hins vegar eigin mat fólks á fjárhagsþrengingum sínum. Þessar mælingar segja ólíka sögu um þróun fátæktar eftir hrunið á Íslandi.

 

Afstæð fátækt 2003 til 2010

Mynd 1 sýnir þróun afstæðrar fátæktar, þ.e. hlutfall einstaklinga sem teljast hafa minni ráðstöfunartekjur en nemur 60% af miðtekjum (tölurnar koma frá Hagstofu Íslands).

Mynd 1: Hlutfall einstaklinga sem eru undir afstæðum fátæktarmörkum (60% af miðtekjum).

Súlurnar sýna hver stór hluti einstaklinga er undir þeim fátæktarmörkum sem ESB notar mest. Hér má sjá að hópurinn var á bilinu 9,6% til 10,2% á árunum frá 2003 til 2008.

Síðan fækkaði einstaklingum undir fátæktarmörkum úr 10,2% og niður í 9,2% frá 2008 til 2010, er við vorum á botni kreppunnar. Mest var lækkunin hjá ellilífeyrisþegum, en um 18% þeirra voru undir þessum fátæktarmörkum árið 2007 en hafði fækkað í 4,6% árið 2010. Mikil hækkun á lágmarksframfærslutryggingu almannatrygginga í byrjun árs 2009 skilaði því (sjá nánar hér).

Þessi mæling segir sem sagt, að úr (afstæðri) fátækt hafi dregið eftir hrunið, þegar út í kreppuna var komið. Er það mjög trúverðug lýsing á þróun fátæktar, í skilningi fjárhagsafkomu heimila? Nei, enda versnuðu kjör allra með hinni miklu kaupmáttarrýrnun sem varð vegna hruns krónunnar á árinu 2008-9, aukins atvinnuleysis og mikillar skuldabyrði.

Það sem mælingin á afstæðri fátækt segir hins vegar er að kjör þeirra fátækari rýrnuðu hlutfallslega minna en hjá miðtekjufólki. Miðtekjurnar lækkuðu meira en lægri tekjurnar. Lágtekjufólki var að hluta hlíft við kjararýrnuninni, umfram hærri tekjuhópa. Hún varð þó umtalsverð.

 

Fjárhagsþrengingar heimila

Tölur um afstæða fátækt segja einungis hvernig lágtekjufólk stendur miðað við miðtekjufólk og því getur það gefið takmarkaða (og jafnvel villandi) mynd af raunverulegri afkomu lágtekjufólks. Þá er að grípa til annarra mælinga sem segja þá sögu betur, þ.e. hvernig afkomu var háttað. Ein slík er mat á erfiðleikum við að láta enda ná saman í rekstri heimilisins, sem Hagstofan kannar líka.

Mynd 2 sýnir hlutfall heimila sem segja “mjög erfitt að ná endum saman”, frá 2004 til 2011.

Mynd 2: Mat á fjárhagsþrengingum heimila (% sem segja mjög erfitt að ná endum saman), 2004 til 2011. (Tölurnar eru frá Hagstofu Íslands)

Hér kemur fram mynd sem er án efa meira í samræmi við upplifanir fólks á afleiðingum kreppunnar. Hlutfall heimila sem segja mjög erfitt að ná endum saman í rekstri sínum fór úr 5,6% árið 2007 og upp í 13,7% árið 2010, er botni kreppunnar var náð. Hópurinn sem var í erfiðum fjárhagsþrengingum meira en tvöfaldaðist að stærð, en minnkaði svo lítillega aftur árið 2011 í 13,3% – og væntanlega hefur hann minnkað áfram eftir það.

Athyglisvert er einnig að árið 2004, í miðju góðærinu, voru um 9,7% heimila sem sögðu mjög erfitt að ná endum saman. Samanborið við það er staðan eftir  hrun ekki svo miklu verri en verið hafði 2004, eða rúm 13% á móti tæpum 10%, ekki síst þegar umfang hrunsins og kreppunnar (t.d. atvinnuleysis) er haft til hliðsjónar. Það bendir til að mótvægisaðgerðir stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins hafi náð að milda áhrif kreppunar á lægri tekjuhópana.

 

Niðurstaða

Ólíkar mælingar á fátækt draga fram ólíkar myndir af þróuninni, enda vísa þær til ólíkra þátta fátæktarreynslunnar. Skoða þarf sem flesta mælikvarða til að fá raunsæa heildstæða mynd. Sjá nánar umfjöllun um aðferðafræði fátæktarrannsókna í nýrri bók, Þróun velferðarinnar 1988 til 2008, í ritstjórn Guðnýjar Bjarkar Eydal og Stefáns Ólafssonar.

Þrátt fyrir að tekist hafi að hlífa lágtekjufólki að hluta við afleiðingum hrunsins á lífskjörin þá jukust afkomuerfiðleikar heimilanna umtalsvert á árunum 2009 og 2010. Fjöldi heimila sem átti mjög erfitt með að láta enda ná saman meira en tvöfaldaðist til 2010, en hefur aftur dregist lítillega saman á síðustu tveimur árum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar