Hagstofan birti í gær niðurstöður nýrrar lífskjarakönnunar, þar sem spurt var um erfiðleika við að láta enda ná saman í fjárhag heimilanna. Niðurstöður eru athyglisverðar.
Á myndinni hér að neðan má sjá hlutfall heimila sem annars vegar segjast eiga “mjög erfitt” með að láta enda ná saman og hins vegar þá sem segja það “erfitt eða frekar erfitt”.
Myndin sýnir bata árið 2011 og 2012, en hægan þó. Þeir sem eiga við mesta erfiðleika að glíma voru 13,7% árið 2010 en hafði fækkað í 11,5% heimila árið 2012. Þeir sem segja “erfitt eða nokkuð erfitt” lækkuðu úr 38,4% árið 2011 í 36,7% 2012.
Þetta er alvöru bati – en varla nóg. Mótvægisaðgerðir gegn skuldavanda, fátækt og atvinnuleysi hafa hjálpað til, en betur má ef duga skal.
Annað sem athygli vekur er að ef við berum saman árin 2012 og 2004 þá er útkoman svipuð. Einungis lítillega fleiri eru í miklum vanda núna, en vandinn sem undan er kvartað nú er þó í mörgum tilvikum stærri (þar sem saman fer skuldavandi, minni kaumáttur launa og atvinnuleysi).
Hvers vegna var þetta mikill vandi á árinu 2004, í miðju “góðærinu”? Jú, þá hafði þrengt nokkuð að lágtekjufólki (lífeyrisþegum, barnafjölskyldum og láglaunafólki), ekki síst vegna skatta- og bótastefnu Sjálfstæðisflokksins.
Annað sem myndin segir er að kjarabati bóluhagkerfisins (2005-2007) er horfinn.
Þar eð vanskil húsnæðislána hafa ekki minnkað frá 2010 er ljóst að vandinn sem fylgir verðtryggðu lánunum er enn alvarlegur. Þetta kemur líka fram í könnun Hagstofunnar. Og þá eru ótalin neikvæð áhrif skuldaklafa heimilanna á hagvaxtargetu þjóðarbúsins.
Þarna eru því enn mikilvæg verk að vinna.
Fyrri pistlar