Fimmtudagur 04.04.2013 - 11:07 - FB ummæli ()

Hættuleg stefna Sjálfstæðisflokks?

Ég hef undanfarið skrifað lítillega um þær blekkingar sem frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum boða í anda vúdú-hagfræði Arthurs Laffers, í útfærslu Hannesar Hólmsteins (sjá hér og hér og hér).

Eftir þessar athuganir tel ég ástæðu til að óttast að kosningastefna Sjálfstæðisflokksins, eins og hún er kynnt, geti stefnt ríkisfjármálunum í voða og leitt í kjölfarið til verulegs niðurskurðar á velferðarkerfinu, með alvarlegum afleiðingum fyrir samfélagsgerðina. Stefnan er einnig líkleg til að dýpka kreppuna á ný.

 

Frá miklum skattalækkunum til halla og niðurskurðar

Hannes Hólmsteinn og félagar halda þeirri firru að fólki að hægt sé að lækka skatta stórlega en samt muni tekjur ríkisins allt að því tvöfaldast! Óvíða í heiminum má finna jafn róttæka og óraunsæa útfærslu af vúdú-hagfræði Laffers!

Sjálfstæðisflokkurinn hefur fylgt þessari göróttu speki í kosningastefnuskrá sinni. Þeir bjóða viðamiklar skattalækkanir (mest til hátekjufólks), í blandi við aukin útgjöld og niðurgreiðslu ríkisskulda. Slíkt hefur aldrei gengið upp.

Um leið segjast þeir ekki ætla að sætta sig við annað en jöfnuð í ríkisfjármálum. Tekjur og útgjöld þurfa þá að vera jöfn. Raunar þurfa tekjur að vera hærri en útgjöld ef greiða á niður ríkisskuldir.

Það er öruggt að með slíkum skattalækkunum sem lofað er, upp á meira en eitt hundrað milljarða,  mun strax verða mikill halli á ríkisfjármálunum á ný, jafnvel þó skattalækkanir gætu veitt einhverja örvun í efnahagslífið. Áætlun AGS og stjórnvalda sem er að komast í höfn færi í loft upp!

Ef ekki á þá að auka ríkisskuldir og vaxtagjöld blasir við að Sjálfstæðismenn munu grípa til mikils niðurskurðar á opinberum útgjöldum, fái þeir tækifæri til að framkvæma þessa stefnu. Það hafa þeir líka sagt áður (t.d. hér). Stærstu útgjaldaliðir eru almannatryggingar (lífeyrir og bætur til aldraðra, öryrkja og  ungra barnafjölskyldna), heilbrigðismál og menntun. Þó lofa þeir auknum útgjöldum til lífeyrisþega.

Menn sjá þá í hendi sér hvað myndi gerast í heilbrigðiskerfinu og skólunum, þar sem þegar hefur verið skorið að beini! Og í opinberum framkvæmdum. Kreppan í heilbrigisþjónustunni, sem fyrrverandi landlæknir hefur rætt um í fjölmiðlum undanfarið, myndi magnast stórlega. Nýi Landsspítalinn yrði settur á ís.

Það er í góðu lagi að berjast fyrir skattalækkunum, en þá eiga menn að hafa bein í nefinu til að segja hvað verður skorið niður í staðinn, því tekjur ríkisins munu minnka. Það eru óheilindi að segja fólki að í senn sé hægt að lækka skatta og stórauka skatttekjur, með töfrabrögðum.

 

Niðurskurður í kreppu dýpkar vandann

En þetta er ekki allt. Eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fylgjendur hagfræði John M. Keynes sýna (Krugman, Stiglitz, Blanchard, Roemer, Skidelsky, Bartlett, o.m.fl.), þá er mikill niðurskurður í kreppu hættulegur, því hann leiðir til enn meiri samdráttar í hagvexti, aukins atvinnuleysis og minni fjárfestingar. Svo getur orðið vítahringur niðurskurðar og samdráttar í framhaldinu (sjá hér).

Þetta er m.a. reynslan frá Spáni og Bretlandi, þar sem hægri menn stjórna í anda niðurskurðarstefnunnar. Svipuð niðurskurðarstefna er rekin á Írlandi, þó þar séu miðjumenn við völd. Þessum þjóðum gengur mun verr en Íslendingum að komast út úr kreppunni (sbr. þróun hagvaxtar og atvinnuleysis).

Með stórfelldum skattalækkunum er ríkisfjármálunum þannig stefnt í voða, í skjóli vúdú-hagfræðinnar. Hættan á miklum niðurskurði í velferðarmálum er þar með stóraukin. Við slíkar aðstæður myndi kreppan dýpka verulega á ný. Við færum afturábak en ekki áfram.

 

Tækifæri til að rústa velferðarkerfinu?

Kanski er það draumur frjálshyggjumanna í Sjálfstæðisflokknum að nota tækifærið í kreppunni til að rústa velferðarkerfinu. Það er einmitt fátt sem veldur þeim meiri hugarangri en opinbera velferðarkerfið. Þannig hugsa líka Repúblikanar í Teboðshreyfingunni í Bandaríkjunum.

Þeir vilja í staðinn lækka skatta á hátekjufólk og auka frelsi braskara.

En venjulegt Sjálfstæðisfólk sem studdi “gamla Sjálfstæðisflokkinn” hugsar ekki eins og Hannes Hólmsteinn og félagar hans. Það vill umhyggju fyrir þeim sem lakar standa (öldruðum, sjúkum og fötluðum; börnum og ungum foreldrum). Það metur lækna og hjúkrunarfólk mikils, jafnvel þó þau starfi fyrir ríkið. Það metur menntun og menningu – og vestræna samvinnu.

Kanski hófsamt og “gamaldags Sjálfstæðisfólk” sé nú að flýja flokkinn sem frjálshyggjumenn tóku yfir og breyttu í “flokk ríka fólksins”?

Kanski það skynji að í stefnunni sem flokkurinn boðar nú felist ógn við samfélagsgerðina á Íslandi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar