Það var mikilvæg áminning sem Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi landlæknir, veitti stjórnmálamönnum í síðustu viku. Hann sagði heilbrigðiskerfið í hættu, vegna mikils niðurskurðar.
Á myndinni hér að neðan má sjá þróun heilbrigðisútgjaldanna sem hlutfalls af landsframleiðslu, frá 2000 til 2011 (tölurnar koma frá Hagstofu Íslands).
Hér má sjá að niðurskurður heilbrigðisútgjalda hófst 2004 og drógust þau afturúr landsframleiðslunni til 2007, með viðvarandi sparnaði og hagræðingu alveg fram að hruni.
Eftir hrun þrengdi svo verulega að heilbrigðisþjónustunni til viðbótar, því tekjutilfærslur til heimilanna voru settar í forgang, t.d. aukning vaxtabóta.
Niðurskurðurinn er inn að beini og heilbrigðisþjónustan hefur látið á sjá, eins og Sigurður Guðmundsson og fleiri talsmenn lækna hafa sagt.
Í því samhengi er athyglisvert að það eru helst stjórnarflokkarnir sem lofa nú auknum útgjöldum til heilbrigðismála og hafa þegar sett umtalsvert aukið fé til tækjakaupa á þessu ári.
Stjórnarflokkarnir hafa einnig látið hanna nýjan Landspítala og þegar sett byggingu hans í farveg.
Sjálfstæðisflokkur lofar hins vegar engum auknum útgjöldum til heilbrigðismálanna, heldur tala þeir um breytta forgangsröðun og aukinn einkarekstur í kosningastefnuskrá sinni.
Þeirra kosningaloforð snúa öll að mikilli lækkun skatta, mest til hátekjufólks og fyrirtækja. Sú stefna mun leiða til mikils niðurskurðar til viðbótar, því tekjur ríkisins munu minnka með slíkum skattalækkunum.
Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að skera enn frekar niður í heilbrigisþjónustunni og einkavæða hana að hluta, ef hann kemst til valda?
Ætlar Sjálftæðisflokkurinn að stöðva byggingu nýja Landsspítalans?
Fyrri pistlar