Miðvikudagur 10.04.2013 - 23:57 - FB ummæli ()

Velferðarríkið frelsar fólk úr fátækt

Það hefur lengi verið þekkt að fátækt er með allra minnsta móti í norrænu samfélögunum. Það er ekki vegna þess að þau séu ríkustu samfélög jarðarinnar eða mestu frjálshyggjusamfélögin, heldur vegna þess að þau eru með öflug og skilvirk velferðarkerfi.

Bandaríkin eru með rúmlega fjórum sinnum stærri hluta barna sem búa við fátækt en norrænu þjóðirnar. Rúmlega 20% barna í USA eru undir fátæktarmörkum en um 4-5% barna á Norðurlöndum. Samt eru Bandaríkin með hærri þjóðarframleiðslu á mann, þ.e. þau eru ríkari samfélag en norrænu samfélögin, að Noregi undanskildum.

Á myndinni hér að neðan má sjá að í vestrænum samfélögum þar sem velferðarríkið er viðameira þar er fátækt almennt minni. Sambandið er sterkt og skýrt.*

 

Slide2

 

Norrænu velferðarríkin eru í senn öflug og tryggja góð og örlát réttindi, sem eru vel til þess fallin að lyfta fólki upp úr fátækt. Þau eru þó ekki dýrustu velferðarríki Vesturlanda.

Útkoman er sú, að norrænu velferðarríkin og önnur öflug velferðarríki ná miklum árangri í að frelsa fólk úr fátækt.

Velferðarríkið er þar með mikilvæg uppspretta frelsis, því fátækt fólk er ófrjálsasta fólkið í markaðssamfélögum nútímans. Hefur fæsta valkosti vegna lítils kaupmáttar.

Rík markaðssamfélög, eins og t.d. Bandaríkin, sem ekki búa að öflugu velferðarríki halda miklu stærri hluta íbúa sinna í fátækt og ófrelsi, bæði börnum og fullorðnum.

Velferðarríkið er því mikilvægasta verkfæri nútímans til að draga úr fátækt og bæta þar með samfélögin á marga vegu. Með fækkun fátækra batnar heilsufar þjóða, menntastig hækkar, úr afbrotum dregur og þjóðin verður ánægðari með líf sitt (óánægðum fækkar).

Samfélagið virkar betur að mörgu leyti – fyrir tilstilli velferðarríkisins.

 _____________________________________

  • Einar Steingrímsson stærðfræðiprófessor hefur réttilega varað við túlkunum á einföldum fylgnisamböndum, eins og því sem hér er sýnt milli velferðarútgjalda og fátæktar. Hann segir að ekki sé nóg að sýna fylgni heldur þurfi einnig að útlista orsakasambandið. Það er hárrétt hjá honum. Það er hins vegar auðvelt að sýna hvernig velferðarkerfið dregur úr fátækt. Hið opinbera skattleggur hærri tekjuhópa samfélagsins meira og flytur tekjurnar sem þannig aflast í gengum prógröm velferðarkerfisins til lægri tekjuhópa, mest til þeirra fátækustu. Þannig er þeim lyft ofar í tekjustigann, upp fyrir fátæktarmörk.
  • Þetta er líka hægt að sýna með samanburði á umfangi fátæktar áður en tekjutilfærslur velferðarkerfisins koma til og eftir að þær leggjast við tekjur fátækra. Án velferðarkerfanna í Evrópu byggju víða um þrisvar sinnum fleiri í fátækt en nú er. Sjá nánar um þetta t.d. í OECD (2011), Divided we stand og bókina Rich Democracies, Poor People.
  • Gögnin á myndinni koma frá OECD.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar