Miðvikudagur 08.05.2013 - 21:05 - FB ummæli ()

Íslenska efnahagsundrið var engin bóla!

Það var margt ævintýralegt sem gerðist hér á Íslandi á frjálshyggjutímanum – svo ekki sé meira sagt.

Landið var tekið yfir af fjárplógsmönnum, í krafti pólitískra valda og peninga. Frjálshyggjudindlar voru klappstýrur þeirra og seldu almenningi hugmyndina – með blekkingum og vúdú-brellum. Fyrir þeim fór Hannes Hólmsteinn Gissurarson.

Hér má heyra vitring frjálshyggjunnar útskýra hvaðan fé kom til útrásarinnar. Hann bendir á ýmsar vúdú-hirslur frjálshyggjunnar, segir þá t.d. hafa vakið til lífsins mikið fé sem svaf athafnalaust í fjóshaugum um land allt. Hann nefnir ekki það sem mestu máli skipti: erlent lánsfé!

Það var ekki bara ein fjölskylda sem tók Ísland yfir og rak það í þrot, eins og talsmenn frjálshyggjunnar prédika. Það var öll fjármálaelítan, hægri pólitíkin og hagsmunasamtök atvinnulífsins sem voru helstu dansararnir á ballinu í Hruna.

Áratugurinn fram að hruni var hápunktur bóluhagkerfisins, sem drifið var áfram af lánsfé. Fyrirtæki og fjármálamenn tóku mestu lánin. Heimilin voru einungis með um áttunda hluta þess sem fyrirtæki og bankar skulduðu við hrun.

Ríkasta eitt prósent þjóðarinnar var meira og minna virkt í spákaupmennsku með lánsfé og græddi gríðarlega á árunum frá 1998 til 2007.

Menn töluðu um bóluhagkerfið sem “Íslenska efnahagsundrið”. Allt virtist ganga vel á meðan lánsféð flæddi. Þetta var veisla, einkum þó hjá hátekjufólki.

Skondið er að formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) sagði eftirfarandi í formlegri yfirlýsingu frá SA þann 3. september 2008, rétt rúmum mánuði fyrir hrun bankanna: “Íslenska efnahagsundrið er engin bóla!

Nú eftir hrun vita hins vegar allir að “íslenska efnahagsundrið” var stærsta bóla heimssögunnar, í hlutfalli við stærð þjóðarbúsins. Hvorki meira né minna.

„Íslenska efnahagsviðundrið“ var réttara heiti!

Þetta var sem sagt risabóla, blásin út með lánsfé. Svona villandi getur það verið sem virðuleg samtök senda frá sér! Og þetta var kallað „efnahagsundur“ af fólki sem átti að heita vel menntað…

Hugmyndafræðingar frjálshyggjutilraunarinnar eru aftur komnir í gírinn og vilja nú ryðja brautina fyrir ný ævintýri á vegum auðmennskunnar. Hólmsteinn segir nú græðgina vera góða (eins og braskarinn Gordon Gekko forðum) og að hrunið hafi bara verið smá óhapp! Ekkert sem talandi er um.

Frjálshyggjumenn vilja aftur græða á daginn og grilla á kvöldin.

Spurningin er bara hvort þjóðin, hin 99 prósentin, verði aftur sett á grillið? Það var nefnilega almenningur sem var grillaður á kvöldin, á skulda-grilli frjálshyggjunnar!

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar