Föstudagur 10.05.2013 - 22:48 - FB ummæli ()

Verður Eurovision bönnuð á Íslandi?

Hvergi hefur hugmyndin um samvinnu Evrópuríkja risið hærra en í Eurovision söngvakeppninni.

Það er einn stærsti sjónvarpsviðburður heims.

Þar koma saman ólíkar Evrópuþjóðir og sýna getu sína á sviði popptónlistar – á sameiginlegu sviði Evrópu, fyrir framan augu og eyru hundruða milljóna Evrópubúa.

Þátttakendur í keppninni eru “tákn sameiningar Evrópuþjóða um fjölbreytileika” (sem var kjörorð Evrópusambandsins um tíma).

Þjóðverjar greiða stærstan hluta kostnaðarins – eins og í Evrópusambandinu.

Athygli hefur vakið hversu mikla áherslu þjóðir Austur Evrópu lögðu á þátttöku sína í Eurovision eftir fall Berlínarmúrsins. Þátttaka í Eurovision var fyrir sumar þessara þjóða fyrsta skrefið að inngöngu í ESB. Tækifæri þeirra til að sýna að þær væru “alvöru Evrópuþjóðir” – en ekki eitthvert austrænt dót aftan úr forneskju!

Aðildarríkjum og áhugasömum umsóknarþjóðum Eurovision og ESB stórfjölgaði í framhaldinu.

Munið þið hversu mikið var lagt í keppnina í Bakú í fyrra? Þetta var fyrir Azera eins og að fá að hýsa heimsmeistarakeppnina í fótbolta eða Ólympíuleikana. Byggðu sérstaka höll undir keppnina og sýndu að þeir voru menn með mönnum – á vettvangi Evrópu.

Þátttaka með glæsibrag er tækifæri til að vera þjóð meðal þjóða – fullgildir meðlimir í Evrópu. „Alla leið…“

Framhjá því verður sem sagt ekki horft að Eurovision keppnin er mikilvægur þáttur í mótun evrópskrar sjálfsmyndar og sameiningar.

Nú þegar Jón Bjarnason og liðið á sauðskinnsskónum hefur náð yfirhöndinni í sjálfstæðis- og einangrunarbaráttunni á Íslandi gætu orðið breytingar á sjónvarpsdagskránni.

Menn heimta nú lokun Evrópustofu og menningarsamskipta við ESB-ríkin.  Vilja banna Ungsinfóníu Evrópusambandsins og Evrópsku óperustofnunina, sem Evrópustofa flutti hingað til lands og bauð uppá ókeypis tónleika  í Hörpu. Hvílík ósvinna!

Frethólkarnir á Evrópuvaktinni hrósa samt sigri og segja þetta svanasöng Evrópustofu á Íslandi.

Einnig skal banna svokallaða “mútustyrki” frá ESB, sem þó var meira en ásættanlegt að þiggja í mun stærri skömmtum frá Bandaríkjunum á gullárum hermangsins og helmingaskiptanna á Keflavíkurflugvelli. Og hjá Íslenskum aðalverktökum og Menningarstofnun Bandaríkjanna.

Stöðvun aðildarviðræðna skal það vera og ekkert meira daður við Evruna eða annan ósóma sem tíðkast í Evrópu. Við ætlum bara að vera fullvalda vísundar á þessum útnára túndrunnar – laus við yfirgang Evrópu. Hamingjusöm með okkar hlægilegu krónu.

Bráðum munu svo almannatenglar afturhaldsins fara að benda talsmönnum forneskjunnar á þetta mikilvægi Eurovision fyrir mótun evrópskrar sjálfsmyndar. Þá getur dregið til tíðinda fyrir Eurovision aðdáendur á Íslandi.

Söngvakeppnin er náttúrulega farvegur fyrir miðlun sameiginlegra evrópskra gilda og úrkynjunar – hvað sem menn vilja kalla þetta allt saman.

Liggur þá ekki beint við að banna næst þátttöku Íslands í söngvakeppninni?

 

Síðasti pistill: Íslenska efnahagsundrið var engin bóla!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar