Sunnudagur 12.05.2013 - 23:16 - FB ummæli ()

Samráð gegn landsbyggðinni?

Samráðsvettvangur um aukna hagsæld skilaði áfangaskýrslu um daginn með tillögum, sumum mjög afgerandi. Í einstaka tilfelli eru þarna villandi staðreyndatilvísanir, t.d. um málefni öryrkja. Þarna eru þó margar góðar hugmyndir, aðrar hæpnar og einhverjar beinlínis hættulegar.

Mér finnst þetta framtak sem sagt mjög virðingarvert – en takmarkað.

Framtakið er framhald skýrslu McKinsey ráðgjafarfyrirtækisins, sem lagði höfuðáherslu á að framleiðni væri lítil á Íslandi.

Helsta ástæða fyrir lítilli framleiðni á Íslandi hefur lengi verið of langur vinnutími. Vinnutími er of langur vegna þess að grunnlaun eru of lág, svo fólk sækir í yfirvinnu til að bæta tekjurnar. Þessu er hægt að taka á og bæta í senn hagkvæmni í atvinnulífinu og lífsgæði fjölskyldna. Þetta er hins vegar hvergi nefnt í skýrslunni.

 

Meginhugmyndin – aukin stærðarhagkvæmni

Markmið samráðsins er að auka hagvöxt og hugsunin er svolítið í anda gamalla hugmynda iðnríkisins um fjöldaframleiðslu, með megináherslu á aukna stærðarhagkvæmni – fækkun og stækkun eininga. Sú leið á stundum rétt á sér, en ekki alltaf.

Þarna liggja helstu annmarkar verksins eins og það stendur núna – óklárað að vísu. Þetta eru ekki tillögur um að bæta samfélagið eða lífsgæði almennings. Þetta eru fremur einhliða tillögur um aukningu hagvaxtar, með hagræðingu í opinbera geiranum og auðveldara rekstrarumhverfi í einkageiranum, m.a. með minni ríkisafskiptum í anda markaðshyggjumanna.

Það er of þröngt sjónarhorn.

Menn hafa þegar risið upp á afturfæturna vegna einstakra tillagna, eins og til dæmis á sviði menntamála. Þar er lagt til að fækka stórlega skólum, stytta námstíma í grunnskólum og framhaldsskólum, stækka bekki og fjölga kennslustundum kennara. Sumt af þessu er gott (stytting námstíma), annað ekki (fækkun skóla og stækkun bekkja).

Þarna er einkum litið til aukinnar stærðarhagkvæmni, þegar vandinn á þessu sviði er sagður vera ófullnægjandi námsárangur og of mikið brottfall úr framhaldsskólum.

Er aukin fjöldaframleiðsla í kennslu besta leiðin til að bæta úr því?

 

Er landsbyggðin helsti bagginn?

Tillögur um gríðarlega fækkun sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, framhaldsskóla, löggæslustofnana og sýslumanna eru af sama toga. Aukin stærðarhagkvæmni.

Gert er ráð fyrir að fækkunin komi mest fram á landsbyggðinni. Samt er að mörgu leyti nærtækara að fækka t.d. sveitarfélögum á höfuborgarsvæðinu!

Að því leyti eru þessar tillögur samráð gegn landsbyggðinni!

Svona tillögur gjörbreyta samfélaginu. Þær færa stjórnendur lengra frá almenningi, draga úr samskiptamöguleikum og draga hugsanlega úr þjónustustigi. Landsbyggðarmenn munu þurfa að fara mun lengra eftir þjónustu og hugsanlega verða beinlínis af þjónustu sem þeir njóta nú.

Þá er ónefnd sú afleiðing slíkra breytinga að störfum faglærðs fólks, háskólamenntaðra sérfræðinga og stjórnenda, myndi stórfækka á landsbyggðinni. Störfum við stjórnsýslu, heilbrigðisþjónustu og menntun. Með slíkum breytingum yrðu samfélög landsbyggðarinnar víða í meiri mæli vettvangur ófaglærðs þjónustufólks og verkafólks en nú er. Einhæfari og fábreyttari. Brottflutningur myndi aukast.

Hvaða áhrif mun svo veruleg fækkun franhaldsskóla á landsbyggðinni hafa á menntastig ungmenna þar, sem hefur verið lægri en á höfuðborgarsvæðinu?

Ein af skýringum þess að menntastig er lægra á landsbyggðinni er að aðgengi að framhaldsskólum í heimabyggð hefur verið ófullnægjandi. Einnig að framboð starfstengds náms sé ófullnægjandi. Það tengist líka brottfalli úr skólum.

Þarna er ýmsum spurningum ósvarað.

Ég ítreka að í tillögum samráðsins er þó margt gott og þess virði að skoða nánar – en sjónarhornið er of þröngt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar