Þriðjudagur 14.05.2013 - 09:44 - FB ummæli ()

Þjóðarsátt um lág laun næstu 3-4 árin?

Nýráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins var í fjölmiðlum í gær. Hann vill nýja þjóðarsátt í haust og segir að til að ná stöðugleika þurfi litlar kauphækkanir næstu 3-4 árin. Það taki tíma að undirbyggja kaupmáttinn.

Í millitíðinni vill hann örva fyrirtækin til fjárfestinga með skattalækkunum, einföldun skattakerfisins og einföldun eftirlitskerfisins – og aðhaldi í ríkisfjármálum. Það á að draga úr ríkisafskiptum – eins og á bóluárunum.

Það er ekkert nýtt í þessu. Svona hefur stefna SA verið lengi.

Það sem er með öðrum hætti nú er að með hruninu gekk mesta kaupmáttarskerðing sem orðið hefur í Evrópu yfir íslensk heimili, með um 20% rýrnum ráðstöfunartekna. Það kom að mestu fram með hruni krónunnar á árinu 2008. Með aukinni skuldabyrði varð kjaraskerðingin enn meiri, í reynd ein sú mesta hér á landi frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

Kaupmátturinn hefur batnað lítillega, einkum á árinu 2011, en alltof hægt 2012 og 2013. Við erum enn of nálægt botni kjaraskerðingarinnar. Þess vegna eru allir óhressir með kjör sín.

Nú vilja atvinnurekendur framlengja það ástand um þrjú til fjögur ár til viðbótar – til að auka „stöðugleika“. Ef það gengi eftir væri búið að festa þjóðina á láglaunakjörum í hátt í áratug.

Það þarf ekki slíka láglaunastefnu í grannríkjunum til að ná stöðugleika eða samkeppnishæfni – eða hagvexti.

Raunar hefur Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, lagt áherslu á að hækkun launa (ekki þó hæstu launa) sé góð leið út úr kreppu. Þegar heimilin eru á kafi í afborgunum of mikilla skulda hjálpar kauphækkun við að auka eftirspurnina í hagkerfinu. Hún örvar einkaneysluna og hagvöxtinn. Snýr hjólum atvinnulífsins hraðar. Býr til störf.

Við sáum það gerast hér á Íslandi á árinu 2011. Þá var góður hagvöxtur í tengslum við góða kaupmáttaraukningu.

Skyldu ASÍ og önnur launþegasamtök vera til í slíka þjóðarsátt um láglaunastefnu til lengri tíma?

Varla. Það er hvorki góð kjarastefna fyrir launafólk né góð hagvaxtarstefna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar