Sunnudagur 30.06.2013 - 10:33 - FB ummæli ()

Frelsisverðlaun – frá mykjudreifara til hippa

Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar voru veitt í gær. Það er alltaf hátíðleg stund þegar Kjartan stígur á stokk og kynnir niðurstöðu sína – fjálshyggjunni til dýrðar.

Kjartan Gunnarsson er auðmaður sem barist hefur fyrir auknum frjálshyggjuáhrifum. Hann var einn stjórnenda Landsbankans fram í hrun og þar á undan framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Kjartan er einn spaugsamasti velgjörðarmaður frjálshyggjunnar á Íslandi.

Í fyrrasumar hlutu mykjudreifari frjálshyggjunnar (AMX-vefurinn) og vúdú-skáldið Hannes Hólmsteinn frelsisverðlaun Kjartans sameiginlega, fyrir framlag sitt á liðnum árum. Það var snjallt, enda mykjudreifarinn og Hannes eitt og sama fyrirbærið!

Samt vekur furðu að AMX-vefurinn hefur ekki borið sitt barr eftir að hafa hlotið verðlaunin í fyrra. Gárungarnir segja að verðlaunin hafi riðið honum að fullu!

Nýr verðlaunahafi er Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri. Gunnlaugur er vænn drengur sem vakti athygli á síðasta ári fyrir hugmyndir sínar um að breyta frjálshyggjunni í eins konar hippahreyfingu – til að fegra ímynd hennar í kjölfar frjálshyggjuhrunsins.

Gunnlaugur lét m.a. hanna nýtt lógó fyrir Frjálshyggjufélagið. Það vakti mikla lukku og þótti sýna hið nýja friðsama eðli frjálshyggjunnar – eða þannig! Hér má sjá nýtt lógó Frjálshyggjufélagsins:

Hippie

                                Freedom man! Peace brother!

Gunnlaugur útfærði sem sagt nýja útgáfu af afskiptaleysisstefnu frjálshyggjunnar í anda innhverfrar íhugunar austurlenskra gúrú-manna, í bland við hugmyndafræði hippanna í Kaliforníu. Nægjusemi, ást, friður og umburðarlyndi eru ný kjörorð frjálshyggjunnar á Íslandi, samkvæmt speki Gunnlaugs Jónssonar.

Þetta þykir frumleg heimspeki hjá Gunnlaugi, enda afskiptaleysisstefna frjálshyggjunnar áður þekkt fyrir allt sem er andstætt þessu: miskunnarleysi markaðarins, fégræðgi, sjálfhverfu og heiftarlega einstaklingshyggju, eins og Ayn Rand boðaði.

Gunnlaugur sýndi líka hvernig frjálshyggjan á samleið með leikritum eðalskáldsins Torbjörns Egner, höfundar Kardemommubæjarins (sjá hér). Ræningjarnir Kasper, Jesper og Jónatan þóttu vera framúrskarandi fyrirmyndir nútímalegra frjálshyggjumanna.

Nýlega hefur Gunnlaugur haslað sér völl sem frumkvöðull á sviði olíuleitar og hyggst bora í Drekasvæðið. Hann hefur enga reynslu á því sviði, en segir frjálshyggjuna verða gott veganesti í þeim leiðangri. Vúdú-hagfræði Hólmsteins mun án efa líka gagnast við útreikning arðseminnar.

Samtökin 78 hlutu einnig frelsisverðlaun frá Kjartani Gunnarssyni að þessu sinni. Það hefur sennilega verið gert til að ljá verðlaununum meiri vikt og virðingu, enda hafa hommar og lesbíur gert alvöru gagn í samfélaginu – ólíkt frjálshyggjumönnum.

Kjartan á heiður skilinn fyrir örlæti sitt og andagift. Vonandi verða verðlaunin viðkomandi til farsældar að þessu sinni – þó illa hafi farið fyrir mykjudreifaranum í fyrra!

 

Síðasti pistill: Veiðigjaldsmál Sjálfstæðisflokksins

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar