Fimmtudagur 17.10.2013 - 15:55 - FB ummæli ()

Færri öryrkjar á Íslandi en í Skandinavíu

Alltaf annað slagið gýs upp umræða um mikla fjölgun örorkulífeyrisþega á Íslandi. Margir virðast trúa því að hér sé framfærslubyrði samfélagsins óvenju mikil vegna örorku og elli. Hér sé alltof auðvelt að komast á örorkulífeyri.

Það er ekki rétt, ef borið er saman við hinar norrænu þjóðirnar.

Á myndinni hér að neðan má sjá hve hátt hlutfall þjóðarinnar 16 ára og eldri þáði lífeyri eða bætur á árinu 2011. Seinni myndin sýnir hve hátt hlutfall í einstökum aldurshópum er á örorkulífeyri.

Hlutfall lífeyrisþega

Mynd 1: Hlutfall allra lífeyrisþega af íbúum 16 ára og eldri, Norðurlöndin árið 2911. (Heimild: NOSOSKO 2012)

 

Hér má sjá að á meðan um 21% íbúa 16 ára og eldri á Íslandi voru á lífeyri eða bótum þá var samsvarandi hlutfall í hinum norrænu löndunum frá 27% til 30%.

Munurinn er umtalsverður. Álíka hátt hlutfall 67 ára og eldri eru á ellilífeyri í öllum löndunum og skýrist munurinn því einkum af lægra hutfalli öryrkja á Íslandi. Það má sjá á næstu mynd.

Hlutfall öryrkja 2011

Mynd 2: Tíðni örorkulífeyrisþega í ólíkum aldurshópum 16-67 ára: Norðurlöndin 2011. (Heimild: NOSOSKO 2012)

 

Örorkulífeyrisþegum fjölgar hlutfallslega með hærri aldri. Þannig er það alls staðar. Einkum verður hlutfall öryrkja hærra eftir 45 til 50 ára aldurinn.

Ísland er með hærra hlutfall örorkulífeyrisþega í yngstu aldurshópunum (þar sem tíðnin er þó lægst), en frá 50 til 54 ára er Ísland á svipuðu róli og hinar þjóðirnar.

Hærra hlutfall ungra öryrkja er líklega mest hér vegna meira brottfalls úr framhaldsskólum. Því fylgja meiri áhættur á að fara afvega í lífi og heilsu.

Frá 55 ára aldri og upp að ellilífeyrisaldri er hlutfall öryrkja á Íslandi umtalsvert lægra.

Öryrkjum fjölgar þannig mun örar með hærri aldri á hinum Norðurlöndunum en á Íslandi. Það er helst í Danmörku sem hlutfallið eftir 60 ára aldurinn er svipað og á Íslandi, en Danir fara þó í mun meiri mæli á lífeyri eftir að 65 ára aldri er náð.

Það er því enginn fótur fyrir þeirri trú sumra að lífeyrisþegar almennt og öryrkjar sérstaklega séu óvenju margir á Íslandi.

Þar að auki hefur verulega dregið úr fjölgun örorkulífeyrisþega á Íslandi á síðustu árum (sjá það hér). Áður þegar atvinnuleysi jókst þá fjölgaði  nýjum örorkulífeyrisþegum mun örar. Það gerðist hins vegar ekki eftir hrun, þó margir hafi óttast að sú yrði raunin.

Breytt vinnubrögð við örorkumat hjá TR ásamt því að tryggt væri að öll önnur úrræði væru reynd áður en fólk með heilsubresti færi á örorkulífeyri skipti máli. Verulega auknar virkniaðgerðir Vinnumálastofnunar og aukin áhersla á endurhæfingu og virkni hjá vinnumarkaðsaðilunum (VIRK) höfðu einnig áhrif til hins betra.

Með þessu var dregið úr líkum á að óeðlilegur fjöldi fólks festist á örorkulífeyri vegna kreppunnar, án þess beinlínis að eiga heima þar. Án þessara mótvægisaðgerða hefðu afleiðingar hrunsins því orðið alvarlegri.

 

Síðasti pistill: Sjálfstæðiskona vegur að fátækum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar