Fimmtudagur 07.11.2013 - 23:12 - FB ummæli ()

Er Framsókn fasistaflokkur?

Það er leiðinlegt að sjá hversu ómálefnalegur Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi stjórnarformaður MP banka, var í helgarpistli sínum í Fréttablaðinu um síðustu helgi.

Þar kallar hann Framsóknarflokkinn “þjóðernispopúlískan” flokk og líkir honum jöfnum höndum við Framfaraflokk Glistrups (sem lagði höfuðáherslu á skattalækkanir) og fasistaflokkinn Gullna dögun í Grikklandi – og fleiri slíka flokka.

Þetta er með talsverðum ólíkindum hjá Þorsteini, þó hann slái úr og í, eins og eftirfarandi ívitnun í flokkun hans á Framsókn með þjóðernispopúlískum flokkum sýnir:

“Þeir flokkar sem hér um ræðir eru nokkuð misjafnir. Sumir hafa jafnvel á sér yfirbragð fasisma. Því er erfitt að draga alla í einn og sama dilkinn þrátt fyrir afar sterk sameiginleg einkenni (áhersla mín).”

Þetta hvorki góð stjórnmálafræði hjá Þorsteini Pálssyni né af heilindum mælt.

Framsókn ef miðjuflokkur með langa sögu. Eins og gjarnan hendir miðjuflokka þá hefur Framsókn sveiflast ýmist til hægri eða vinstri í afstöðu til einstakra málefna.

Þorsteinn fann ekki að því þegar Framsókn lét Sjálfstæðisflokk Davíðs og Hólmsteins draga sig út í dýpstu fen óheftrar frjálshyggju (1995 til 2006), með skelfilegum afleiðingum fyrir íslensku þjóðina.

Fyrir síðustu kosningar lagði Framsókn ríka áherslu á velferðarmál og vildi ganga lengra en gert hafði verið í að verja heimilin gegn afleiðingum kreppunnar. Skuldaniðurfellingin og afnám verðtryggingar á húsnæðislánum voru slík mál, auk annarra velferðarmála.

Framsókn vildi setja heimilin í forgang. Það var mikilvæg áhersla sem fékk hljómgrunn hjá kjósendum.

Þetta var sveifla Framsóknar í átt til meiri velferðarstefnu og raunar einnig gegn ESB-aðild. Þorsteinn vill frekar hægri sveiflu – en þó með áherslu á aðild að ESB.

Það er skiljanlegt að Þorsteinn hafi orðið fyrir vonbrigðum með framvindu ESB-aðildarviðræðnanna.

En að vaða fram og líkja Framsóknarflokknum við fasistaflokka og þjóðernispopúlíska flokka er ansi langt gengið.

 

Sjálfstæðismenn hlaupa frá skuldaleiðréttingunni

Þó skuldaleiðréttingin sé komin frá Framsókn þá ber Sjálfstæðisflokkurinn líka ábyrgð á henni. Lækkun skulda heimilanna er jú lykilatriði í stjórnarsáttmálanum.

Þorsteinn virðist hugsa meira um hag fjármálastofnana og virðist einnig vilja grafa undan Framsókn í stjórnarsamstarfinu. Hann unir því augljóslega ekki að Framsókn fari með forystu í stjórninni. Hann reynir að aftra því að velferðarstefna Framsóknar nái fram að ganga – og þar með vill hann veikja samstarfsflokkinn.

Tvískinnungur Sjálfstæðismanna gagnvart skuldleiðréttingunni er raunar orðinn ansi mikill. Styrmir Gunnarsson talar t.d. eins og Framsókn sé á skilorði hjá Sjálfstæðisflokknum vegna málsins (sjá hér).

Ástæða er því til að spyrja um heilindi Sjálfstæðismanna gagnvart stjórnarsáttmálanum – og þar með gagnvart samstarfsflokknum. Þorsteinn Pálsson er ekki óbreyttur alþýðumaður í flokknum, heldur áhrifamaður.

Þegar hann líkir samstarfsflokknum við fasistaflokka erlendis þá ættu viðvörunarljós að loga. Það er hins vegar ánægjulegt að forsætisráðherra lætur engan bilbug á sér finna.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar