Á umhverfisþingi í fyrradag komu fram miklar og verðskuldaðar efasemdir um fyrirhugaða gjaldtöku af ferðamönnum sem skoða íslenskar náttúruperlur.
Ég hef áður gagnrýnt slík áform og varað við að gjaldtaka fyrir náttúruskoðun getur breytt eðli íslenskrar ferðaþjónustu á neikvæðan hátt.
Svo er rétt að minna á að Íslendingar verða sjálfir rukkaðir fyrir að skoða náttúruperlur “sínar”. Af hverju ekki að hækka frekar gistináttaskattinn, sem Íslendingar sleppa við? Hann er óvenju lágur fyrir.
Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent í ferðamálafræðum, sagði passann hvorki í sátt við land né þjóð og benti á ýmsar eðlilegri leiðir til að afla frekari tekna til uppbyggingar af ferðaþjónustunni, í erindi sínu á umhverfisþinginu.
Meðal annars er alveg órannsakað hvaða áhrif slík gjaldtaka muni hafa á ímynd og árangur ferðaþjónustunnar – og á ferðalög Íslendinga sjálfra.
Ástæða er til að hlusta á fagfólkið í ferðaþjónustu og umhverfismálum áður en rokið er til að peningavæða náttúruskoðun á Íslandi á flausturslegan hátt. Enginn mælti með náttúrupassa á umhverfisþingi.
Mig grunar líka að hljóð muni heyrast úr horni þegar íslenskur almenningur áttar sig á því, að hann verður rukkaður sérstaklega fyrir að fara og ljósmynda Öxarárfoss í sumarblíðunni…
Þó náttúrupassinn sé vanhugsaður og órannsakaður var fyrsta hugmynd gjaldtökumanna mun hrikalegri. Hún var sú að koma fyrir kofa við sérhverja náttúruperlu landsins og hafa þar slefandi rukkara á vakt við að heimta toll af vegfarendum. Þetta var sett fram í fullri alvöru!
Það er þrátt fyrir allt til bóta að slík kofavæðing íslenskrar náttúru virðist ekki lengur á dagskrá.
Fyrri pistlar