Sunnudagur 10.11.2013 - 15:21 - FB ummæli ()

Gamli grömpí Moggakarl

Þeir eru að halda upp á hundrað ára afmæli Moggans um helgina. Að því tilefni keypti ég mér eintak af helgarblaðinu og vænti mikils. Bjóst við hátíðarútgáfu, bakkafullu blaði af gefandi efni.

Þar er reyndar sitthvað sem má lesa til skemmtunar og fróðleiks. Sérstaklega um menningu og listir og um hinn nýja borgarstjóra New York borgar, sem er jafnaðarmaður og vill draga úr ójöfnuði í borginni. Það verður ærið ef ekki óvinnandi verkefni hjá honum.

Í blaðinu er jafnvel sagt frá nýrri og álitlegri menningarstefnu Evrópusambandsins, sem setur nú skapandi greinar í öndvegi. Þar kemur fram að ESB ætlar að styrkja 250 þúsund evrópska listamenn við að koma verkum sínum á framfæri, styðja dreifingu 800 kvikmynda, styðja við 2000 kvikmyndahús og kosta þýðingu 4500 bóka. Kraftur í þessu.

Þetta er annar tónn en berst úr kimum hægri stjórnmálanna á Íslandi! Þar er krafist niðurskurðar í skapandi greinum, þvert á það sem aðrar þjóðir gera nú. Menningarleg eyðimörk virðist vera markmiðið á höfuðbólum hægrimennskunnar.

Sumir vilja jafnvel loka Þjóðleikhúsinu og tónlistarHörpunni – og helst svelta rithöfunda og myndlistarmenn. Nóg um það.

Þó Mogginn hafi losað sig við marga reynslubolta og búi nú að fámennara starfsliði en áður er þar þó enn að finna fagfólk. Fyrir það ber að þakka. Þeim ber að halda veglega afmælishátíð.

Ég veit hins vegar ekki hvað skal segja um ritstjórann. Þegar maður les Reykjavíkurbréfið blasir við hálf furðulegur boðskapur önugs gamalmennis.

Það er meira eins og Davíð Oddsson sé orðinn hundrað ára – en ekki Mogginn sjálfur!

Bréf dagsins er síbylja gegn Evrópusambandinu, Alþingi og öðrum stjórnmálum á Íslandi. Allt er þar ómögulegt, segir ritstjórinn. Líka núverandi ríkisstjórn.

Ritstjórinn sjálfur leiddi þjóð sína meira afvega en nokkur annar hefur gert í sögu lýðveldisins, bæði sem forsætisráðherra og seðlabankastjóri. Er hann sérstaklega traustvekjandi dómari um stjórnmál nútímans? Kanski eigendurnir ættu að hugleiða þessa spurningu…

Á hinn bóginn sér ritstjórinn eitthvað gott við pylsugerðina í landinu og virðist vilja taka hana fram yfir alla pólitík! Þetta hljómar eins og ný laglína í gamalli möntru frjálshyggjumanna – um að markaður sé alltaf betri en lýðræði!

Það hefði verið farsælla ef eigendur Moggans hefðu haft metnað til að þróa blaðið í átt til vandaðri erlendra stórblaða. Við þurfum á ábyggilegri og hlutlausri umfjöllun um þjóðmál og menningu að halda. Þar sem bæði hægri, miðja og vinstri, upp og niður, og út og suður fá að njóta sín í hófstilltu en gagnrýnu jafnvægi.

Í staðinn kusu þeir að gera blaðið að málgagni þröngra eigin hagsmuna og fallins frjálshyggjuforingja, sem vill endurskrifa söguna í eigin þágu. Útkoman er eftir því.

Vonandi verður annað uppi á síðum Moggans í framtíðinni.

Til hamingju með afmælið!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar