Mánudagur 11.11.2013 - 11:53 - FB ummæli ()

Þorsteinn Eggertsson aðlaður

Það var vel við hæfi hjá Félagi tónskálda og textahöfunda (FTT) að heiðra gleðigjafann Þorstein Eggertsson fyrir hið stórmerka framlag hans til textagerðar í íslenskum dægurlagaheimi (sjá hér).

Steini Eggerts, eins og hann var jafnan kallaður í Keflavík, er óvenju snjall textasmiður og með afbrigðum afkastamikill. Hann hefur samið mörg hundruð texta sem hafa verið gefnir út – og fjölmargir náð miklum vinsældum.

Steini er ekki bara textagerðarmaður. Hann er raunar liðtækur á mörgum sviðum lista. Hann er myndlistamaður, söngvari og leikari, auk textagerðarinnar, svo nokkuð sé nefnt. Þá er hann einstaklega skemmtilegur sögumaður.

Við Steini unnum saman við húsamálun hjá Bigga Guðna, málarameistara og menningarfrömuði í Keflavík, eitt sumar er ég var unglingur. Meðal annars máluðum við gamla barnaskólann í Keflavík. Steina þótti ekki mikið til þess verkefnis koma, enda var hann þá að hanna plötuumslag fyrir Hljóma, auk margra annarra pælinga sem áttu hug hans allan.

Vegna þessa annríkis við meira skapandi starf en að mála gluggalista fór Steini sjaldan upp í málarastigann og eftirlét mér að klára dagskammt okkar beggja af gluggalistum. Það var auðvitað ósanngjarnt, en í staðinn fékk ég að njóta frásagnarlistar hans. Hann lét dæluna ganga á meðan ég málaði á tvöföldum hraða.

Það voru reyndar góð skipti því Steini var óendanlega skemmtilegur, hvort sem hann sagði sögur af sjálfum sér, öðrum eða lét eigin pælingar fljóta fríhendis. Og hvílíkt hugarflug! Svo hló hann stundum mest sjálfur af ævintýralegum og súrrealískum hugmyndum sínum. Ég skemmti mér óvenju vel í vinnunni þetta sumarið.

Ég tek heilshugar undir með þeim sem hafa fagnað með Þorsteini Eggertssyni nú þegar honum er sýndur sómi af samherjum í listaheiminum. Starf hans að listum er gott og mikilvægt – þó afrek hans í málun gluggalista hafi varla náð máli!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar