Þriðjudagur 12.11.2013 - 10:38 - FB ummæli ()

Mús er fædd…

Tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar litu dagsins ljós í gær. Því ber að fagna. Það á auðvitað að vera eilífðarverkefni að fara betur með opinbera fjármuni.

Raunar er ástand í þeim efnum almennt ekki slæmt á Íslandi. Opinber rekstur er almennt hófsamur og hagkvæmur og lágur launakostnaður miðað við einkageira gerir hann yfirleitt ódýran.

Við verjum t.d. minni  hluta þjóðarframleiðslu til opinberra útgjalda – og til velferðarútgjalda sérstaklega – en frændur okkar á hinum Norðurlöndunum. Á síðasta kjörtímabili var starfsmönnum við opinbera stjórnsýslu fækkað verulega, sem jók hagkvæmni enn frekar.

Þetta er langur listi hjá hagræðingarhópnum. Upptalningar hugsanlegra verkefna frekar en útfærðar hugmyndir um skipulagsbreytingar eins og boðað hafði verið. Þarna má sjá gamlar hugmyndir frá síðustu tveimur ríkisstjórnum og í mörgum tilvikum er lagt til að “kanna” og “skoða” möguleika á hinu og þessu.

Gott og vel.

Mér varð hins vegar hugsað til vinnunnar sem stendur yfir á vegum “Samráðsvettvangs um aukna hagsæld”. Það er starf sem byggir á skýrslu McKinsey & Company.

Þar má sjá vinnubrögð sem eru lengra komin, með meiri rökstuðningi fyrir kerfisbreytingum, þó menn þurfi ekki að vera sammála öllu sem þar er.

Tillögur Hagræðingarhóps Ásmundar Einars Daðasonar eru meira eins og listi frá Heimdalli Sjálfstæðisflokksins um allt það í ríkisrekstrinum sem þeim er illa við. Engin rökstuðningur, engin heildstæð hugsun – bara niðurskurður.

Til dæmis er lögð til sameining stofnana sem á yfirborðinu virðast eiga eitthvað sameiginlegt. En hvað skyldi vera sameiginlegt í rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar og Þjóðleikhússins, annað en að bæði eru á sviði menningar?

Eða hvað gæti verið sameiginlegt með rekstri Þjóðminjasafns og Listasafns Íslands, annað en að bæði eru á sviði menningar? Hvers vegna skyldi vera hentugt að hafa sama forstjóra yfir þessum stofnunum – um leið og hann sinnti öðrum minni stofnunum að auki? Hvar hefur slíkt stjórnskipulag stofnana verið reynt með góðum árangri?

Fækkun háskóla með sameiningum var mikið könnuð á síðasta kjörtímabili, en endaði með auknu samstarfi milli opinberra háskóla. Niðurstaðan á þeim vettvangi varð sú, að helsta hagræðingin gæti verið falin í sameiningu Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. En vilja eigendur Háskólans í Reykjavík það? Ég held ekki.

Góð hugmynd er að sameina rannsóknarstofnanir atvinnuveganna við háskóla, samhliða einhverri fækkun háskóla. Þá hugmynd tekur hópurinn upp frá Vísinda- og tækniráði (sjá hér). Það var gert í Danmörku, með ágætum árangri. Þetta mætti tengja við hugmyndir um byggingu þekkingar- og nýsköpunarklasa við Háskóla Íslands, sem þegar er hafin með byggingu hátækniseturs Alvogen lyfjafyrirtækisins.

Hagræðing er flókin og erfið í framkvæmd. Til að ná árangri þarf meira en gaspur og góðan vilja.

En orð eru til alls fyrst – svo vonandi verður einhver árangur af þessu starfi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar