Föstudagur 22.11.2013 - 21:03 - FB ummæli ()

Styrmir svaf á vaktinni

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, var lengi helsti stjórnmálagreinandi landsins, í krafti stöðu sinnar.

Hann lagði línur fyrir flokkinn og sagði almenningi hvað væri rétt og rangt – og einkum að öllum væri hollast að lúta forystu Sjálfstæðisflokksins í einu og öllu.

Nú gætir mikils óþols hjá Styrmi vegna slæmrar stöðu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Nýliðið prófkjör flokksins var algert klúður, bæði vegna lítils framboðs af álitlegu fólki almennt og ekki síður vegna lélegs árangurs kvenna, sem margar hverjar voru álitlegustu frambjóðendurnir.

Sú sem fremst var í hópi kvenna í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, flýr nú af velli. Þar er skarð fyrir skildi í flokknum, vegna þess að hún var ein af örfáum þar á bæ sem sinnti velferðarmálum af einlægni.

En aftur að Styrmi. Eftir að niðurstaða lá fyrir í Reykjavík kallaði hann strax eftir  umræðu í Sjálfstæðisflokknum um slæma stöðu í Reykjavík. Vildi opinn fund í Valhöll um hvers vegna frambjóðendur flokksins eru lítt boðlegir. Davíð Oddsson kallar prófkjörið „gagnslaust“, enda nýr leiðtogi listans hlynntur ESB-aðild.

Slíkur opinn fundur myndi án efa hafa mikið skemmtigildi fyrir þá sem hafa gaman að kaldhæðni.

Í dag fárast Styrmir svo yfir því að Dagur B. Eggertsson sé að uppskera langmestan stuðning í embætti borgarstjóra. Styrmir spyr hvað í störfum Sjálfstæðisflokksins hafi valdið þessari stöðu, sem sé niðurlægjandi fyrir flokkinn (sjá hér).

Góð spurning, en Styrmir á að vita svarið.

 

Það sem gerist meðan Styrmir svaf

Ástæða virðist því til að minna Styrmi á hvers vegna fylgi Sjálfstæðisflokksins er almennt mun minna nú en á árum áður og hvers vegna staðan í Reykjavík er sérstaklega slæm. Ég hef raunar áður bent á þetta, meðal annars í ritdómi um bók Styrmis um deilur og átök í Sjálfstæðisflokknum (hér og hér).

Eftir að Eimreiðarmenn, með róttæklinginn Hannes Hólmstein í forystu, tóku yfir flokkinn og sveigðu hann á tíma Davíðs í átt róttækrar frjálshyggju að hætti Repúblikana í Bandaríkjunum, þá hurfu forsendurnar fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn gæti náð stuðningi meira en 20-30 prósenta kjósenda. Jafnvel þó reynt sé að fela þessa róttæku frjálshyggju þá getur slíkur flokkur ekki höfðað til stærri hluta íslenskra kjósenda.

Í Reykjavík mætti auðvitað rifja upp skelfilegan feril Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórninni, frá því þeir rændu þar völdum með óábyrgum gylliboðum til Ólafs F. Magnússonar, sem þá var í veikindaleyfi. Þeir notuðu hann á ósvífinn og siðlausan hátt til að kljúfa sitjandi meirihluta.

Rúmum sex mánuðum síðar slátruðu Sjálfstæðismenn Ólafi, einnig á einkar ósmekklegar hátt. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sagði einmitt frá þessu fyrr á þessu ári og lýsti vanþóknun sinni á framferði félaga sinna í Sjálfstæðisflokknum.

Svo þegar Hanna Birna hafði komist til valda, eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hafði losað sig við Ólaf F. Magnússon, þá sagði hún fyrir kosningar að staða Orkuveitunnar væri með ágætum og ekki þyrfti að hækka notendagjöldin. Orkuveitan var þá á hraðferð í risagjaldþrot!

Þetta eru aðeins tvö dæmi af mörgum sem skýra hvers vegna mörgum þykir nú lítið til vinnubragða Sjálfstæðismanna koma.

Styrmir virðist hafa sofið á vaktinni, ef allt þetta hefur farið framhjá honum. Ekki hvarflar að mér að halda að hann telji að svona framferði sé í lagi, eða  geti gengið án þess að fjöldi kjósenda hverfi á braut!

En vonandi verður Styrmi að ósk sinni um opinn fund í Valhöll um vanda og vonleysi Sjálfstæðismanna.

 

Síðasti pistill: Dagur er risinn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar