Andstæðingar ESB-samningaviðræðna hafa verið nær vitstola frá því aðildarumsóknin komst á dagskrá.
Auðvitað mega þeir vera á móti aðild Íslands að ESB.
Það hefur hins vegar verið leiðinlegt að sjá hversu ómerkilegur málflutningur þeirra flestra hefur verið. Þeir hafa iðulega farið offari og fórnað hagsmunum og valkostum Íslands með yfirgengilegu bulli sínu um ESB (sjá hér).
En þessir andstæðingar aðildar unnu umræðuna í kosningabaráttunni, jafn skrítið og það er – því tryggur meirihluti kjósenda hefur viljað ljúka viðræðum og sjá hvað aðild gæti falið í sér.
Að undanförnu hefur bullið um ESB haldið áfram, jafnvel þó málið ætti að vera komið af dagskrá.
Utanríkisráðherra sendi ESB fingurinn fyrr á þessu ári: stöðvaði aðildarviðræður, leysti samninganefndina frá störfum og lýsti yfir að hann vonaðist til að Ísland myndi aldrei gerast meðlimur í þessu “ólýðræðislega” sambandi evrópskra þjóðríkja. Ráðherrann talar fyrir hönd “íslenskra stjórnvalda”.
Í framhaldi af þessari framgöngu Íslendinga stöðvaði ESB nú nýlega greiðslu svokallaðra IPA styrkja, til umbótaverkefna hér á landi er tengjast hugsanlegri aðild. Auðvitað hlaut ESB að skrúfa fyrir þessar styrkveitingar í kjölfarið – það sjá allir.
Þá bregður svo við að utanríkisráðherrann rýkur upp og kallar þetta mikla ósvífni að hálfu ESB, sem sé þeim lítt til álitsauka hér á landi. Þetta segir ráðherrann sem áður lagðist harkalega gegn þessum IPA styrkjum og kallaði þá nánast mútur og aðlögunarstyrki sem ekki ættu rétt á sér.
Það er óvarlegt af íslenskum stjórnvöldum að tala svona opinberlega, ekki síst gagnvart aðila sem skiptir hagsmuni Íslands afar miklu – bæði í bráð og lengd.
Ritstjóri Morgunblaðsins, sem sjálfur hefur verið mikilvirkur í afbökunum og bulli um Evrópusambandið, segir þessi viðbrögð ESB til marks um að sambandið vilji nú slíta viðræðum við Ísland!
Fór það virkilega framhjá ritstjóra Morgunblaðsins að Ísland stöðvaði aðildarviðræðurnar?
Æ hvað það væri gott ef við Íslendingar gætum komist á hærra plan!
Síðasti pistill: Rökvillur niðurskurðar í kreppu
Fyrri pistlar