Föstudagur 06.12.2013 - 20:55 - FB ummæli ()

Kaupið – SGS tekur forystu

Allir hafa tekið eftir því hversu mikill þrýstingur er gegn alvöru kauphækkunum til almennings, ekki síst af hálfu Samtaka atvinnulífsins (SA).

Atvinnurekendur vilja frysta launafólk á botni kreppunnar til lengri tíma. Þeir vilja halda laununum óeðlilega lágum og segja að litlar kauphækkanir bæti hag launafólks mest! Það er öfugsnúið – svo ekki sé meira sagt. ASÍ hefur kallað málflutning SA sögufölsun.

Sjálfir hafa atvinnurekendur margir á bilinu 3 til 10 milljónir á mánuði í heildartekjur (atvinnutekjur og fjármagnstekjur samanlagðar).

Starfsgreinasambandið (SGS) hefur nú tekið forystuna í kjarabaráttunni og leggur fram hóflega og sanngjarna kröfu fyrir launafólk sitt. Hún gengur út á að láglaunafólk fái flata 20 þúsund króna hækkun á mánuði. Aðrir fái hóflega prósentuhækkun.

Vilhjálmur Birgisson á Akranesi vill líka að lægsta fólkið fái 20 þúsund króna hækkun. Hann talar máli almennings.

Þetta er skynsamlegt upplegg hjá SGS og síst of rausnarlegt. Láglaunafólk fær hlutfallslega mest með þessari leið, en aðrir fá einhverja kaupmáttaraukningu.

Menn þurfa að gá að því, að Hagstofan spáir 3,6% verðbólgu næsta árið. Til að fólk fái kaupmáttaraukningu þarf kaupið að hækka meira en þessi 3,6% sem verðlag mun hækka.

Ríkið gerir sjálft ráð fyrir að kaupmáttur hækki um 2,5% á næsta ári (í forsendum fjárlaga). Til að ná því þarf kaup að hækka um 5-6% að jafnaði á árinu.

 

Launþegar hafi vit fyrir atvinnurekendum

 

Samtök atvinnulífsins höfnuðu hófsamri kröfu Starfsgreinasambandsins með afgerandi hætti í dag. Atvinnurekendur geta ekki hugsað sér að hækka megi 200 þúsund króna laun láglaunafólks um 20 þúsund krónur á mánuði!

SGS sleit viðræðum umsvifalaust og búa samtökin sig nú undir að fylgja kröfum sínum eftir með öllum ráðum.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni. Mikið er í húfi fyrir launafólk.

Raunar væri líka gott fyrir efnahagslífið að almenningur fái aukinn kaupmátt, því það örvar atvinnulífið og hagvöxtinn.

Atvinnurekendur hafa þó ekki skilning á því.

Það bendir til að þeir hugsi af of mikilli þröngsýni um eigin kaup og gróða. Þeim yfirsést að þeir ná auknum hagnaði af meiri umsvifum í hagkerfinu, sem kaupmáttaraukning almennings skapar.

Það væri því gott ef launþegasamtökin gætu haft vit fyrir atvinnurekendum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar