Mánudagur 16.12.2013 - 14:25 - FB ummæli ()

Heimurinn – vaxandi áhyggjur af ójöfnuði

Útdráttur: Fræðimenn voru fyrstir til að benda á aukningu ójafnaðar á Vesturlöndum á síðustu áratugum. Síðan tóku hagskýrslustofnanir undir og stjórnmálamenn fóru smám saman að láta sig málið varða. Nú er svo komið að jafnvel auðmennirnir í Davos eru farnir að hafa áhyggjur af auknum ójöfnuði í heiminum, ekki síst innan vestrænna samfélaga. Það er fróðlegt út af fyrir sig, því þeir ríkustu eru sjálfir helsta orsök ójafnaðarins! Þeir geta þá kanski líka orðið hluti af lausninni. Þeir þurfa einungis að sætta sig við minni hluta af þjóðartekjunum í löndum sínum og leyfa öðrum að fá meira. Þá hverfur vandinn! Hér kemur grein um þetta efni:

 

Ójöfnuður tekna og eigna fór að aukast á Vesturlöndum eftir að nýfrjálshyggjuáhrifa fór að gæta í ríkari mæli, frá um 1980. Þessi þróun byrjaði með ríkisstjórnum Margrétar Thatchers og Ronald Reagans .

Hvers vegna tengist aukinn ójöfnuður við nýfrjálshyggjuna?

Jú, það er vegna þess að nýfrjálshyggjan leggur áherslu á stefnu sem styður einkum hagsmuni hátekju- og stóreignafólks, gegn hagsmunum millistétta og tekjulægri hópa. Frjálshyggjan tekur yfirstéttina alltaf fram yfir venjulegt fólk.

Áhersla nýfrjálshyggjunnar á óhefta markaði og gegn lýðræðislegum ríkisafskiptum og velferðarríkinu skilar víðast hvar auknum ójöfnuði.

Í fjármálakreppunni, sem einnig má rekja að stórum hluta til óheftari fjármálamarkaða, eykst ójöfnuður víða enn frekar, því atvinnuleysi leggst með meiri þunga á fólk í lægri stéttum. Síðan er því mætt með niðurskurði bóta og stuðnings frá velferðarríkinu – sem magnar ójöfnuðinn enn frekar.

Á undanförnum árum höfum við séð að þessi þróun er farin að vekja vaxandi áhyggjur, meðal annars hjá stjórnmálamönnum og fræðimönnum.

Við höfum ítrekað séð sérfræðinga OECD lýsa vaxandi áhyggjum sínum um að aukinn ójöfnuður ógni hagvexti og stöðugleika í heiminum. Áður tóku sömu aðilar undir með frjálshyggjuhagfræðingum og sögðu að ójöfnuður væri nauðsynlegur hvati til hagvaxtar! Nú er sem sagt öldin önnur.

Obama Bandaríkjaforseti sagði nýlega að mikilvægasta verkefni samtímans væri að draga úr ójöfnuði og fjölga tækifærum.

Hið hægri sinnaða og íhaldssama tímarit Economist sömuleiðis. Ég hef undanfarið bent á að jafnvel páfinn í Vatíkaninu sé farinn að vara opinberlega við hættulegum áhrifum nýfrjálshyggjunnar, meðal annars varar hann við blekkingum brauðmylsnukenningarinnar.

Vúdú-hagfræði frjálshyggjunnar er víða á undanhaldi.

 

Yfirstéttin í Davos hefur líka áhyggjur af of miklum ójöfnuði

Ný síðast er það svo yfirstéttarsamkoman í Davos sem lýsir áhyggjum af vaxandi ójöfnuði í heiminum. Yfirstéttin í Davos eru topp viðskiptajöfrar heimsins, ásamt stjórnmálamönnum og álitsgjöfum sem þeir hafa á snærum sínum. Þessi ágæti hópur hittist árlega í Davos og ræðir vanda heimsins – sem venjulega er þar skilgreindur sem vandi kapítalismans.

World Economic Forum, sem er heiti samkomunnar, gefur út skýrslur til að ræða á fundum sínum og til að hafa áhrif á heimsbyggðina. Meðal ágætra skýrslna þeirra er Outlook on the Global Agenda.

Í nýjasta hefti þess rits eru stærstu ógnir heimsins útlistaðar. Númer eitt eru vaxandi átök og hætta á frekari stríðsátökum fyrir botni Miðjarðarhafs.

Númer 2 er vaxandi ójöfnuður í heiminum.

Þið fyrirgefið mér hversu mikilvægt – og jafnvel mótsagnakennt – mér finnst þetta vera. Það hefur nefnilega komið fram í helstu rannsóknum á ójöfnuði, að hann hefur einkum aukist vegna þess að ríkasta eitt prósentið og nálægir hópar hafa verið að taka til sín sífellt stærri hluta þjóðarkökunnar í löndum sínum.

Vaxandi ójöfnuður er yfirleitt vegna aukinnar græðgi og óbilgirni þeirra allra ríkustu. Minna verður þá eftir handa hinum. Þessi þróun er svo réttlætt með hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, m.a. brauðmylsnukenningunni um að molar falli af veisluborðum yfirstéttarinnar niður til millistéttarinnar og svo þaðan til þeirra fátæku.

Vandinn er sá, að lekinn niður af veisluborðum yfirstéttarinnar er nær enginn – auk þess sem hann myndi alltaf skila of litlu, jafnvel þó einhver væri.

Þess vegna segja sérfræðingar OECD að hagvexti og stöðugleika sé nú ógnað af of miklum ójöfnuði. Líka Nóbelsverðlaunahafarnir í hagfræði, Paul Krugman og Joseph Stiglitz.

Vandinn er sá, að almenningur nýtur ekki ávaxta hagvaxtarins. Of mikið rennur til auðmanna á toppnum.

Ef auðmennirnir sjálfir eru farnir að hafa af þessu áhyggjur, þá eru hæg heimatökin. Ef þeir sætta sig við minna þá verður meira til skiptanna fyrir alla hina.

Það með verður vandinn úr sögunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar