Laugardagur 11.01.2014 - 10:45 - FB ummæli ()

Rangfærslur um norræna kjarasamninga

Það stendur upp úr sumum hér á landi að kjarasamningarnir sem gerðir voru í skjóli jóla hafi byggt á “skandinavískri aðferðafræði”.

Látið er í veðri vaka að þessi skandinavíska aðferðafræði felist í því að semja um minni kauphækkanir en nemur verðbólgustigi og verðbólguspá fyrir samningstímann.

Svo er sagt að þannig megi ná “raunverulegri kjarabót”. Það er blekking.

Ef kaup hækkar minna en verðlag, þá minnkar kaupmáttur. Raunlaun lækka.

Það er ekki raunveruleg launahækkun, heldur rýrnun kjara. Þannig er almennt ekki samið á hinum Norðurlöndunum.

Ásmundur Einar Daðason stekkur á þennan vagn í gær og segir eftirfarandi:

“Kjarasamningar sem undirritaðir voru í lok síðasta árs voru unnir eftir aðferðarfræði sem reynst hefur vel á norðurlöndum. Eitt af markmiðum þessa kjarasamnings var að ná tökum á verðbólgu og ná þannig fram raunverulegum launahækkunum.”

Við þetta má gera eftirfarandi athugasemdir:

  • Skandinavar hafa mun hærri laun en Íslendingar
  • Skandinavar vinna mun skemmri vinnutíma en Íslendingar
  • Kaupmáttur Skandinava lækkaði ekki um 20% í fjármálakreppunni eins og gerðist á Íslandi
  • Skandinavar þurfa því ekki að vinna upp mikið kaupmáttartap eins og við
  • Skandinavar semja gjarnan um hóflegar kauphækkanir, enda ásættanlegt í því kjarasamhengi sem þeir búa við
  • Kaup í Skandinavíu hækkar þó almennt um 2% umfram verðlag á ári hverju
  • Skandinavar búa við stöðugri gjaldmiðla en Íslendingar, sem skapar mun meiri stöðugleika og minni verðbólguþrýsting
  • Skandinavar þurfa ekki að rýra kaupmátt til að ná stöðugleika. Þeir hafa alvöru gjaldmiðil og festu í stjórnsýslu sem því skilar

Í þessu samhengi verður varla framhjá því horft, að allt þetta tal um að það sé sérstaklega skandinavískt að semja um kaupmáttarrýrnun er einfaldlega áróður og ósannindi – í besta falli misskilningur.

Skandinavar leggja ábyrgðina á stöðugleika ekki einhliða á launþega. Þeir þvinga því ekki fram kaupmáttarskerðingar til að ná fram stöðugleika. Þeir fara aðrar leiðir til þess.

 

Mun lakari samningur en tíðkast á Norðurlöndum

Tölur í nýlegri skýrslu aðila vinnumarkaðarins um kjarasamninga á Norðurlöndum sýna að laun hækka þar árlega meira en verðlag  – að staðaldri.

Verðbólga á hinum Norðurlöndunum var um 1,8-1,9% á ári að meðaltali frá 1993 til 2012. Tímakaup í iðnaði hækkaði á sama tíma um 3,5-3,9%.

Kaupmáttur launa á hinum Norðurlöndunum jókst almennt um nálægt 2% á ári frá 1993 til 2012 – svipað og hagvöxturinn. Kaup hækkaði sem sagt reglulega um 2% umfram verðlag.

Það er skandinavísk aðferðafræði í kjarasamningum.

Nýr kjarasamningur SA og ASÍ gerir ráð fyrir 2,8% almennri kauphækkun á Íslandi í 3-4% verðbólgu og 0,3% kaupmáttaraukingu ef verðbólgumarkmið Seðlabankans (2,5%) næst. Það er þó fjarri því að vera í hendi.

Þetta er augljóslega mun lakari kjarasamningur en tíðkast á hinum Norðurlöndunum – þó þörf fyrir kauphækkun sé nú meiri hér.

Eina leiðin til að ná sambærilegum árangri hér á landi væri að gera verðtryggðan kaupmáttarsamning um nálægt 2% hækkun launa á ári hverju.

Í „aðfararsamningi“ að skandinavískri aðferðafræði til lengri tíma hefði hins vegar átt að sækja fastar fram nú til að ná okkur fyrst betur upp úr kreppufarinu.

Launþegahreyfingin virðist hins vegar hvorki hafa styrk til að gera eðlilegan aðfararsamning né til að ná hófsömum skandinavískum kjarasamningi. Það er umhugsunarefni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar