Laugardagur 15.02.2014 - 13:06 - FB ummæli ()

Braskarar klófesta orkuveitu

Reykjavík Vikublað, sem er í ritstjórn Ingimars Karls Helgasonar,  er með athyglisverða umfjöllun í dag um innreið fjármálabraskara í grunnþjónustu samfélagsins á Suðurnesjum. Með því færist grunnþjónustan og arðurinn af henni frá samfélaginu til einkaaðila.

Þar er sagt frá kaupum Ursus I á stórum hlut í HS Veitum. Ursus er stýrt af Heiðari Má Guðjónssyni, fjárfesti og frjálshyggjumanni, fyrrverandi starfsmanni erlendra vogunarsjóða.

Þetta er nýjasti kaflinn í hrunsögu Orkuveitu Suðurnesja, sem áður var glæsilegt fyrirtæki í eigu íbúa svæðisins. Fyrirtækinu var skipt upp í HS Orku og HS Veitur fyrir hrun. HS Orka var seld til skúffufyrirtækisins Magna Energy, sem var í eigu tungulipurs braskara frá Kanada. Það fyrirtæki hefur síðan skipt um nafn.

Sú sala var réttlætt með því að kaupandinn ætlaði að koma með fé inn í fyrirtækið. Það reyndist rangt, enda þurfti seljandinn (Reykjanesbær) að lána honum fyrir kaupverðinu! Tær snilld!

Nú er sem sagt líka verið að koma sífellt stærri hluta af HS Veitum í hendur braskara.

Þessi vegferð öll á sennilega rætur sínar í því, að stjórnendur Reykjanesbæjar drekktu sveitarfélaginu og fyrirtækjum þess í skuldum, með “fjármálasnilli” sinni á áratugnum fyrir hrun. Telja sig nú þurfa að selja verðmætar eignir samfélagsins til að grynnka á óreiðuskuldunum.

Þjónar þetta hag almennings og íbúa á Suðurnesjum?

Nei, öðru nær.

Þarna er um að ræða einokunarfyrirtæki sem veita íbúum heitt og kalt vatn og rafmagn. Kostir samkeppnisrekstrar koma ekki við sögu í slíkum rekstri, því neytendur eru bundnir þessum fyrirtækjum. Einkavæðing slíkra félaga gefur eigendum veiðileyfi á neytendur.

Notendagjöldin munu hækka hressilega til lengri tíma.

Síðan er sú hlið málsins, að einkaaðilar og braskarar (jafnvel þó þeir starfi með aðstoð lífeyrissjóða) hafa ekkert nýtt fram að færa til slíks rekstrar.

Íslendingar hafa áratuga reynslu af uppbyggingu og rekstri orkuveita í almenningseigu. Það hefur gengið mjög vel og skilað miklum arði til sameiginlegra verkefna.

Það hefur einnig skilað heimilunum óvenju lágum kostnaði við hitun húsa og rafmagn, sem hefur gert Ísland byggilegra fyrir alla. Það er mikill árangur í landi þar sem allt er óvenju dýrt – nema húshitun og rafmagn.

Þarna er víti til að varast. Leiðinlegt er að sjá lífeyrissjóði greiða fyrir því að braskarar klófesti innviði samfélagsins með þessum hætti.

 

Síðasti pistill: Seðlabankinn:  Allar kjarabætur bannaðar!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar