Mánudagur 17.02.2014 - 16:22 - FB ummæli ()

Kaupmáttur fyrir og eftir þjóðarsátt

Í umræðum um kjarasamninga er oft sagt að allir hafi tapað á verðbólguárunum og að með þjóðarsáttarsamningunum frá og með 1990 hafi kaupmáttur fyrst tekið að aukast, svo um munaði.

Það er rangt. Tölur um breytingu kaupmáttar heimilanna sýna annað.

Árleg aukning kaupmáttar ráðstöfunartekna heimilanna var meiri að jafnaði á verðbólguárunum frá 1960 til 1987 (5,3% á ári) en á tíma þjóðarsáttarinnar frá 1990 til 2008 (2,5%). Miklu munar.

Raunar náði kaupmáttaraukning hinna ósjálfbæru bóluára frá 2003 til 2008 ekki að fullu kaupmáttaraukningu tímabilsins 1960 til 1987 (5,1%).

Tímabilið frá 1960 til 1987 var því einstakt hvað bættan hag heimilanna á Íslandi varðar.

Árangur þjóðarsáttarinnar snéri hins vegar einkum að lækkun verðbólgunnar.

Þjóðarsáttartímabilið skilaði minni verðbólgu, en einnig minni aukningu kaupmáttar en verið hafði að jafnaði í nærri þrjá áratugi frá 1960.

Þetta má sjá á tveimur myndum hér að neðan. Sú fyrri sýnir samband breytingar á kaupmætti ráðstöfunartekna heimilanna og verðbólgu frá ári til árs, frá 1955 til 2012.

Slide1

Hér má sjá að raunaukning kaupmáttar ráðstöfunartekna (gráu súlurnar) var flest árin frá 1960 til 1987 talsvert hærri en á árunum eftir 1990. Þrátt fyrir mikla verðbólgu jókst kaupmáttur heimilanna langmest á milli 1960 og 1987.

Fyrst eftir að þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir (1990) tók við samdráttur kaupmáttar eða stöðnun alveg til 1994 og í góðærinu frá 1995 náðist bara þokkalegur árangur – miðað við fyrra tímabilið.

Seinni myndin sýnir beinni samanburð á þremur tímabilum: verðbólgutímanum, tíma þjóðarsáttar og bóluhagkerfis.

Slide2

Verðbólguárin frá 1960 til 1987 voru sem sagt mesta framfaratímabil þjóðarinnar hvað snertir bæði hagvöxt og aukningu kaupmáttar heimilanna. Þjóðarsáttartímabilið frá 1990 og fram að hruni var umtalsvert lakari tími fyrir kaupmáttaraukningu, þó verðbólga væri vissulega minni.

Þetta eru staðreyndirnar.

Þetta þýðir ekki að ég sé að óbreyttu að mæla með verðbólgu. Helsti ókostur hennar er vegna verðtryggingarinnar, sem eykur skuldir heimilanna.

Það má hins vegar velta fyrir sér, á grundvelli þeirrar reynslu sem myndirnar sýna, hvort heimilin væru betur sett í dag án bæði verðtryggingar og þjóðarsáttar? Þetta hljómar þó líklega eins og helgispjöll í hugum sumra.

Ef þjóðarsáttarsamningar eiga í framtíðinni að verða eins og sá kjarasamningur sem nú liggur fyrir, þ.e. með lítilli sem engri kaupmáttaraukningu, þá verður þessi spurning meira og meira viðeigandi.

Dómur reynslunnar er sem sagt sá, að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna jókst langmest á verðbólgutímanum frá 1960 til 1987.

Samt voru inni á því tímabili þrjár djúpar kreppur með kaupmáttarskerðingum (hrun síldarstofnsins 1968-9; alþjóðakreppa í kjölfar mikilla olíuverðhækkana 1974-5 og misgengisárin 1983-4). Þessar kreppur lækka meðaltal kaupmáttaraukningar, sem þó náði um 5,3% á ári að jafnaði.

————————–

Skýringar: Tölur um kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna ná til samanlagðra launa, skatta og bóta, auk greiðslubyrðar af húsnæðislánum. Þessar tölur gefa því heildstæða mynd af afkomuþróun heimilanna. Tölurnar eru, líkt og verðbólgutölurnar, reiknaðar árlega af Hagstofu Íslands (áður Þjóðhagsstofnun).

 

Síðasti pistill: Braskarar klófesta orkuveitu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar