Hin nýja ópera Gunnars Þórðarsonar, Ragnheiður, var sýnd í Hörpu í gærkveldi. Óperan byggir á rammíslenskri ástar- og örlagasögu Ragnheiðar biskupsdóttur í Skálholti, frá ofanverðri 17. öld. Friðrik Erlingsson samdi textann og Petri Sakari stjórnaði hljómsveitinni.
Sýningin var öll hin glæsilegasta, raunar stórbrotin og mjög áhrifarík. Enda fögnuðu óperugestir lengi og innilega. Þetta var mikill sigur höfunda og flytjenda.
Ætla hefði mátt að sagan um hin grimmu örlög Ragnheiðar væri þung og dapurleg – sem hún auðvitað er. En Gunnari Þórðarsyni tekst að vefja hana inn í svo heillandi tónlist að unun er á að hlýða. Texti Friðriks og tónlistin falla vel saman. Einvalalið einsöngvara og óperukórinn skiluðu þessu mikla listaverki óaðfinnanlega, í snjallri sviðmynd Grétars Reynissonar.
Gunnar Þórðarson hefur auðvitað fyrir löngu skapað sér sess sem stórmeistari íslenskrar dægurtónlistar. Nú brýtur hann blað í heimi klassískrar tónlistar á Íslandi, með þessu mikla verki.
Sem gamall Keflvíkingur hef ég fylgst með ferli Gunnars Þórðarsonar frá fyrstu tíð. Þó ég sé mjög ánægður með uppvaxtarárin í Keflavík þá verður að viðurkenna, að Keflavík var enginn sérstakur vettvangur hámenningar á þeim tíma. Þó fitjað væri upp á ýmsu þá voru óperur og sinfóníur varla partur af menningunni í plássinu.
Þetta var útvegsbær þar sem lífið var fiskur og strit. Mannlífið var nokkuð ófágað en óvenjulegt vegna nærveru bandaríska hersins á Miðnesheiðinni, sem almennt var ekki til neinnar sérstakrar siðeflingar. Biskupinn í Skálholti hefði fundið þar margt sem betur mátti fara!
Ég man eftir Gunna og Rúnari Júlíussyni félaga hans sem leigubílstjórum hjá hernum á Keflavíkurflugvelli. Það þóttu með skárri störfum fyrir unga stráka með nýfengið bílpróf – þeir voru á stórum gráum drossíum að keyra yfirmenn hersins um vallarsvæðið og næsta nágrenni. Það var flott þegar Íslendingar höktu um á Skódum, Lödum og öðrum fólksvögnum – og unnu í fiski.
Sem betur fer festust þeir félagar þó ekki í akstrinum eða fiskinum heldur fundu sköpunarþörf sinni útrás í hljómlistinni. Fyrir framtak Gunnars og félaganna í Hljómum náði Keflavík því að verða leiðandi á sviði dægurtónlistar á Íslandi um langt árabil, þó margir fleiri hafi lagt hönd á plóginn og bætt í flóruna. Talað var um “rokkbæinn Keflavík” og “Liverpool Íslands”. Þarna varð gróska.
Það er á sinn hátt með ólíkindum að mikill listamaður eins og Gunnar Þórðarson skyldi vaxa upp úr þessu frekar fábrotna umhverfi.
En það er á hinn bóginn saga Íslands og Íslendinga almennt. Hér gerast ólíkindalegir hlutir oft á tíðum, þó umhverfið virðist ekki sérstaklega örvandi eða styðjandi.
Þrátt fyrir slæma pólitík og krefjandi náttúruumhverfi brjóta einstaklingar sér leið. Stéttaskipting hefur verið blessunarlega lítill fjötur á framtak og tækifæri fólks, samanborið við mörg önnur samfélög. Samfélagið á Íslandi hefur þrátt fyrir allt verið verið opið og jákvætt.
Nú er ég kominn nokkuð af upphaflegri leið minni, en tilefnið var að taka ofan fyrir Gunnari Þórðarsyni og samstarfsfólki hans í óperunni.
Fyrri pistlar