Sunnudagur 09.03.2014 - 00:44 - FB ummæli ()

Nýfrjálshyggjan – hugmyndafræði hákarlanna

Sífellt fleirum er að verða ljóst að hinn aukni ójöfnuður í Bandaríkjunum og víðar, sem ágerst hefur eftir um 1980, tengist breyttri pólitík. Það sem mestu veldur eru aukin áhrif nýfrjálshyggjunnar.

Í raun varð grundvallarbreyting á ríkjandi þjóðmálaviðhorfum á Vesturlöndum með útbreiðslu nýfrjálshyggjunnar upp úr 1980 (á ensku: neoliberalism). Margrét Thatcher og Ronald Reagan voru áhrifamestu kyndilberarnir.

Í stað áherslu stjórnmála blandaða hagkefisins, að hagvöxturinn nýttist öllum þegnum jafnt til hagsbóta, hefur komið sú áhersla nýfrjálshyggjunnar að veita skyldi atvinnurekendum og fjárfestum sérstök fríðindi, umfram alla aðra. Nýfrjálshyggjan er fyrst og fremst hugmyndafræði hákarlanna.

Mest áberandi stefnumál nýfrjálshyggjunnar hafa verið lækkanir skatta á hærri tekjuhópa og stóreignafólk, frelsi undan ríkisafskiptum og eftirliti, þ.e. afskiptaleysisstefna – auk annarra fríðinda til fjárfesta og atvinnurekenda.

Til að mæta skattalækkunum þarf svo að skera niður útgjöld til velferðarmála, sem rýrir kjör lægri og milli tekjuhópa.

Nýfrjálshyggjumenn vilja líka grafa undan verkalýðsfélögum. Það eykur frelsi og hagnað atvinnurekenda og fjárfesta en rýrir kjör og réttindi almenns launafólks (sjá hér).

Svo var boðað að slíkt auðmannadekur myndi auka hagvöxt og brauðmolar hrynja af borðum hástéttarinnar niður til almennings. Þannig myndi nýfrjálshyggjan þjóna hag allra, sögðu talsmenn ójafnaðarins.

Þetta hefur því miður reynst blekking eða tálsýn. Hinn aukni ójöfnuður eftir 1980 sýnir það, svart á hvítu. Yfirstéttin, ríkustu 1 til 5 prósent þjóðanna, hefur tekið til sín sífellt stærri hluta þjóðartekna.

Millistéttin og lægri tekjuhópar drógust hins vegar afturúr.

Það þýðir að hagvöxturinn rann á þessum tíma að stærstum hluta til yfirstéttarinnar einnar, ekki síst í Bandaríkjunum.

Hvers vegna gerðist þetta?

Pólitík nýfrjálshyggjunnar er að stórum hluta ábyrg (sjá t.d. hér og hér). Hin auknu fríðindi til hátekju- og stóreignafólks skila einungis auknum ójöfnuði. Einnig hið aukna frelsi á fjármálamörkuðum, sem raunar jók ekki aðeins tekjur og eignir yfirstéttarinnar á kostnað almennings, heldur drekkti einnig hagkerfum margra hagsælli þjóðanna í skuldum. Það var einkum yfirstéttin sem stóð í braski með lánsfé, ekki almenningur.

Það leiddi svo til fjármálakreppunnar – sem magnar svo ójöfnuðinn enn frekar í mörgum löndum. Ísland er þó undantekning í þeim efnum, því ójöfnuður minnkaði hér stórlega eftir að kreppan skall á, m.a. vegna stefnu stjórnvalda.

Hugmyndafræðingar nýfrjálshyggjunar hafa haft greiðan aðgang að miklu fjármagni til að breiða út áróður sinn, í áróðursveitum hvers konar (neoliberal think tanks) og í háskólaumhverfi og fjölmiðlum (sjá t.d. hér).

Ástæðan er sú að hákarlar í hópi auðmanna, eins og Koch bræður í USA, sjá sér hag í því að styrkja slíkt áróðursstarf og að kaupa sér þar með pólitísk áhrif. Það hefur sýnt sig að vera góð fjárfesting fyrir hákarlana. Þeir hafa komið nýfrjálshyggjunni til mikilla áhrifa með fjáraustri sínum í flokka og einstaka stjórnmálamenn. Pólitíkin skilaði hákörlunum auknum fríðindum í staðinn.

En vindarnir eru nú að snúast, því sífellt fleiri sjá að þessi þróun ógnar sjálfum kapítalismanum. Ef almenningur nýtur ekki hagvaxtarins, eins og áður fyrr, þá snýst hann gegn hagskipulaginu og ríkjandi stjórnmálum. Upplausn eykst.

Skynsamir kapítalistar leggja nú í auknum mæli baráttunni gegn ójöfnuði og fátækt lið – meira að segja á auðmannasamkomunni í Davos.

Til að það virki þurfa þeir hins vegar að hafna nýfrjálshyggjunni, hugmyndafræði hákarlanna. Hákarlarnir fá aldrei nóg af fjármagni og nýfrjálshyggjan réttlætir taumlausa græðgi þeirra, sem getur svo af sér sífellt meiri ójöfnuð.

Stóra spurningin á Íslandi er hvort Sjálfstæðisflokkurinn nái að hrista þessa óværu af sér? Litlar líkur virðast þó vera á því.

Svartstakkar og harðlínumenn nýfrjálshyggjunnar reyna sífellt að herða tökin á flokknum.

 

Nýlegur pistill: Ör hnignun milistéttarinnar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar