Útvegsmenn segja nú að gengið sé alltof hátt skráð og vilja gengisfellingu. Þá muni hagnaður þeirra aukast.
Það er alveg rétt. Gengisfelling eykur hagnað útvegsins. Hún rýrir hins vegar kaupmátt almennings og hækkar skuldir heimilanna. Hagnaður útvegsins af gengisfellingu er tap almennings.
Fall gengisins í hruninu var gríðarlegt og kjaraskerðing heimilanna sömuleiðis. Hagnaður sjávarútvegsins tók þá stórt stökk uppávið og hefur verið í methæðum síðan þá.
Krepputíminn hefur verið einstök gósentíð fyrir sjávarútveg.
Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir meðalhagnað á ári á tímabilinu frá 1993 til 2007 og svo frá og með hruninu til 2012 (tölurnar eru frá Hagstofunni).
Hagnaður á fjórtán ára tímabilinu 1993-2007 var rúm 6% á ári að meðaltali, sem er alveg ágætt. Frá hruninu hefur hagnaðurinn hins vegar verið 21% í sjávarútveginu öllum, en fór upp í rúm 30% í loðnuveiðum og bræðslu, sem var arðsamasta greinin.
Hagnaður frá 2008 hefur sem sagt verið hátt í fjórum sinnum meiri en hann var að jafnaði á einum og hálfum áratug fyrir hrun.
Þetta er afkoma sem er raunar fádæma góð í atvinnulífinu, hvort sem er hér á landi eða erlendis. Þó veiðigjaldið leggist á þetta þá stendur eftir gríðarlega góð afkoma í greininni, enda tekur veiðigjaldið bara hóflegan hluta af hagnaðinum.
Og nú vilja útvegsmenn meiri gengisfellingu og meiri hagnað – sem myndi rýra afkomu heimilanna á ný.
Þeir sem mest hafar fá aldrei nóg!
Af hverju heyrast ekki raddir sem verja hag heimilanna gegn svona tilefnislausu tali útvegsmanna?
Fyrri pistlar