Í síðustu viku var kynntur eins konar sigur fyrir Ísland í makríldeilunni á fundi í Edinborg. Sagt var að samkomulag hefði tekist milli Íslands og ESB um niðurstöðu, en Norðmenn væru eins og snúið roð og skemmdu fyrir samkomulagi.
Þetta hljómaði ágætlega.
Nú er allt annað uppi.
RÚV hefur í dag eftir norska sjávarútvegsráðherranum:
“Ráðherrann segir að á fundinum í Edinborg hafi Norðmönnum orðið ljóst að fullreynt væri að ná samningum með þátttöku Íslands. Færeyingar og ESB hefðu líka verið þeirrar skoðunar.”
Þetta er þvert á það sem sagt var hér heima!
Og í gær er svo allt í einu komið samkomulag milli ESB, Noregs og Færeyinga – og íslensku aðilarnir koma af fjöllum. Okkur býðst þó að ganga inn í samkomulag þessara aðila og taka því sem þau komu sér saman um.
Við erum sem sagt utan gátta og ekki fullgildir aðilar samkomulagsins.
Það er kanski eðlilegt hlutskipti þeirra sem vilja vera á eigin vegum og hnýta stöðugt í viðskiptavini sína og samstarfsríki. Vilja fá allt fyrir ekkert.
Viðbrögð íslenska ráðherrans eru svo þau, að ESB hafi “gengið á bak orða sinna”. Það fær þó varla staðist.
Þetta hljómar ekki vel og maður efast um að hagsmuna Íslands sé nægilega vel gætt, til lengri tíma.
Það er eins og okkar menn hafi verið úti að aka á meðan hinir voru að vinna að lausn málsins.
Viðbót:
Norðmenn virðast hafa fengið auknar heimildir til aðgangs að fiskveiðilögsögu ESB, í tengslum við undirritun samkomulagsins um makríl í London í gær. Sjá um það hér.
Fyrri pistlar