Ég er svolítið hugsi yfir því að ráðgjafarfyrirtækin KPMG og Analytica séu að leggja til að Ísland taki upp það sem þeir kalla “danska húsnæðiskerfið”. Lýsingin hljómaði reyndar nokkuð undarlega og félagslegi þátturinn í tillögunum virtist vera heldur lítilfjörlegur.
Ég á eftir að skoða tillögurnar betur, en sumt sló mig undarlega í frásögn fréttamanna af þessu.
Burt séð frá því má spyrja, hvers vegna Íslendingar ættu yfir höfuð að vera að leita til Danmerkur að fyrirmynd á þessu sviði?
Það er alls ekki augljóst að þar sé besta kerfið að finna!
Dönsk heimili eru t.d. þau skuldugustu í Evrópu, jafnvel talsvert verr stödd en þau íslensku.
Skuldabyrði vegna húsnæðis var mun þyngri í Danmörku en á Íslandi árið 2010, þegar staðan var hvað verst hér. Íslensk heimili vörðu þá um 17-18% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað en þau dönsku um 28%.
Þetta má sjá á eftirfarandi mynd frá Hagstofu Íslands. Danmörk er neðst á listanum!
Hlutfall heimila sem eru með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað (þ.e. þau sem verja meira en 40% af ráðstöfunartekjum í húsnæðiskostnað) er tvöfalt hærra í Danmörku en á Íslandi! Um 18% heimila voru í þeirri stöðu í Danmörku árið 2012 en um 9% á Íslandi. Þetta eru heimili í miklum vanda. (Sjá mynd hér að neðan: Heimild: Eurostat).
Skyldu þeir sem mæla með “danska kerfinu” vita af þessum „árangri“ kerfisins?
Af hverju er ekki horft á hin norrænu kerfin, sem eru með mun minni skuldabyrði en það danska? Hugsanlega er eitthvað gagnlegt við danska kerfið en er ekki ástæða til að leita fanga víðar, ekki síst í ljósi ofangreindra upplýsinga?
Fyrri pistlar